Gígjan Lógó
 
Skođanakönnun
Hvađa rödd syngur ţú í ţínum kór?


27.04.2014 - Vortónleikar Kvennakórs Hafnarfjarđar

Vortónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar verða haldnir þann 1. maí n.k. og bera yfirskriftina Vorið kallar. Tónleikarnir verða í Hásölum við Strandgötu og hefjast kl. 20:00.

Dagskráin er fjölbreytt en þó ber hæst tónlist frá frændum okkar á hinum Norðurlöndunum og mega tónleikagestir eiga von á léttri og leikandi stemmningu. Auk sönglaga eftir Sibelius og fleiri norræn tónskáld mun kórinn flytja nokkur þekkt dægurlög sem eiga uppruna sinn vestanhafs um og eftir miðja síðustu öld og hafa notið vinsælda æ síðan.

Hin fjölhæfa handverkskona, Arndís Sigurbjörnsdóttir, mun sjá um að skreyta Hásali í anda vorkomunnar en jólaskreytingar hennar vöktu mikla athygli á tónleikum kórsins í Víðistaðakirkju í desember s.l.

Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir, Antonía Hevesi leikur á píanó og flautuleikari er Kristrún Helga Björnsdóttir. Um 50 konur starfa nú með Kvennakór Hafnarfjarðar en viku eftir tónleikana heldur kórinn til Akureyrar þar sem u.þ.b. 700 konur munu taka þátt í Landsmóti íslenskra kvennakóra.

Miðaverð á tónleikana er 2500 krónur og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Gestum verður boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.

 

 

« Til baka

Kíktu á okkur á Facebook