Gígjan landssamband íslenskra kvennakóra var stofnað 5. apríl 2003. Markmið með stofnun sambandsins er
að efla starfsemi og samstarf kvennakóra. Einnig að efla samskipti við kvennakóra erlendis og safna og
 miðla upplýsingum um starfsemi og sögu íslenskra kvennakóra.

Þorravaka, menningardagskrá í tali og tónum, verður haldin fimmtudaginn 13. febrúar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ og hefst kl. 20.
Menningardagskráin er orðin árlegur viðburður í menningarlífi Garðabæjar og er þetta nítjánda árið sem Kvennakór Garðabæjar og Menningar- og safnanefnd Garðabæjar standa fyrir dagskrá sem þessari.
Sú hefð hefur skapast að bæjarlistamaður Garðabæjar kynnir sig og verk sín. Bæjarlistamaður í ár er rithöfundurinn Bjarni M. Bjarnason en hann á að baki ellefu skáldsögur auk níu annarra ritverka. Bjarni hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar á ferli sínum, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin.
Ræðumaður kvöldsins er Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri FranklinCovey á Íslandi. Guðrún er þekkt fyrir einstaklega skemmtileg og fræðandi erindi en auk stjórnunarstarfa og kennslu við HR hefur hún síðastliðin ár unnið sem leiðbeinandi og markþjálfi í íslensku atvinnulífi og leitt fjölda vinnustofa um árangur liðsheilda og vinnustaða.
Það er alltaf gaman og gefandi að kynna framúrskarandi nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar fyrir áheyrendum Þorravöku og fylgjast með þeim stíga sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni.
Kvennakór Garðabæjar lofar fjölbreyttu og léttu lagavali en mun einnig kynna komandi afmælisár sem hefst 4. september nk. þegar kórinn fagnar tuttugu árum frá stofnun.
Þorravakan hefst kl. 20 og er aðgangseyrir 1800 kr. en innifalið er kaffi og kruðerí að hætti kórkvenna.

Lesa meira

Jólakveðja

Fyrir hönd stjórnar Gígjunnar, landsambands íslenskra kvennakóra, sendi ég kórkonum um land allt hugheilar jóla- og nýjárskveðjur og þakka kærlega fyrir samstarfið, sönginn og samveruna á árinu sem er að líða. Ég vona að árið 2020 færi ykkur fullt af gleði, fallegum söng, skemmtilegum verkefnum og að kirkjur og tónleikastaðir landsins fyllist af áheyrendum sem eru þangað komnir til þess að hlusta á frábæra kvennkakóra Íslands.
Þessi frábæra mynd er af rúmlega 700 kórkonum á landsmóti Gígjunnar á Akureyri maí 2014. Ég vona að það verði enn fleiri kórkonur á myndinni sem verður tekin í maí 2020 af þátttakendum landsmótsins í Reykjavík. Við sjáumst þá :)
Jólakveðjur og knús á ykkur allar <3
Kolbrún H, formaður
Lesa meira

Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar verða í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 5. desember kl. 20:00.

Yfirskrift tónleikanna, Mandarínujól, er tilvísun í lagið Myrkur og Mandarínur en bæði lag og texti er eftir þær Sigríði Eir og Völu í Hljómsveitinni Evu. Lagið var sérstaklega útsett fyrir Kvennakór Hafnarfjarðar af Vilberg Viggóssyni og mun kórinn frumflytja lagið á þessum tónleikum í kvennakórsútsetningu.

Á efnisskrá tónleikanna verður fjölbreytt tónlist í anda jólahátíðarinnar. Auk sígildra jólalaga sem flestum eru löngu kunn mun kórinn flytja klassísk hátíðarverk en einnig tónlist sem stendur nær okkur í tíma.

Einsöngvari á jólatónleikunum er ein ástsælasta söngkona okkar Íslendinga, Guðrún Gunnarsdóttir. Antonía Hevesi leikur á píanó, Jón Rafnsson á bassa og flautuleikari er Guðrún Herdís Arnarsdóttir. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir.

Miðaverð er 3.000 kr. og fer miðasala fram við innganginn. Einnig má senda tölvupóst á kvennakor.hafnarfjardar@gmail.com. Ókeypis er fyrir börn 12 ára og yngri. Að venju verður tónleikagestum boðið að þiggja létta hressingu í tónleikahléi.

Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á jólatónleika Kvennakórs Hafnarfjarðar og hlökkum til að eiga með ykkur hátíðlega stund á aðventunni.

Lesa meira
Kórkonur í Kvennakór Garðabæjar eru sannarlega komnar í jólaskap! Í ár verða tvennir tónleikar þar sem uppselt hefur verið sl. tvö ár og færri komust að en vildu. Fyrri tónleikanir verða mánudagskvöldið 2. desember og þeir seinni þriðjudagskvöldið 3. desember og hefjast kl. 20 í hinni hljómfögru Guðríðarkirkju í Grafarholti.
Efnisskrá aðventutónleika okkar er ætíð fjölbreytt þar sem hátíðleiki og léttleiki mætast í jólalögum frá öllum heimshornum. Sérstakir gestir eru hljóðfæraleikararnir Elísabet Waage, hörpuleikari og Sólveig Anna Jónsdóttir, píanóleikari.
Hin margrómaða samverustund eftir tónleika verður á sínum stað í hliðarsal kirkjunnar þar sem boðið verður upp á heitt súkkulaði og kruðerí.
Forsala aðgöngumiða er hjá kórkonum og á netfanginu kvennakorgb@gmail.com. Forsöluverð er 3000 kr. en miðaverð við innganginn 3800 kr.
Lesa meira