Lög Gígjunnar landssambands íslenskra kvennakóra

1. grein
Nafn sambandsins er: Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra. Heimili þess og varnarþing er lögheimili formanns hverju sinni.
2. grein
Markmið sambandsins er að:
 • Efla samstarf kvennakóra landsins.
 • Safna og miðla upplýsingum um starfsemi kvennakóra.
 • Efla erlend samskipti.
3. grein
Markmiðum sínum hyggst sambandið ná með því að:
 • Halda úti vefsetri landssambandsins; gigjan.is
 • Standa að fræðslufundum og námskeiðahaldi.
 • Aðstoða við undirbúning kvennakóramóta á þriggja ára fresti.
 • Efla tengsl við sambærileg sambönd erlendis.
4. grein
Félagar sambandsins eru kvennakórar sem sótt hafa um aðild og greitt hafa árgjald. Kór segir sig sjálfkrafa úr sambandinu með því að greiða ekki árgjald að undangengnum ítrekunum frá stjórn.
5. grein

Aðalfundur fer með æðsta vald í sambandinu. Aðalfundur skal haldinn ár hvert að hausti fyrir 15. nóvember. Stjórn sambandsins skal boða til aðalfundar með óyggjandi hætti til stjórna kóranna með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Í fundarboði skal koma fram dagskrá fundarins. Greint skal frá meginefni tillagna sem leggja á fyrir fundinn og lagabreytingartillögum ef einhverjar eru. Aðalfundir Gígjunnar eru opnir öllum en aðeins tveir fulltrúar hvers aðildarkórs Gígjunnar hafa atkvæðisrétt. Tillaga hlýtur samþykki ef helmingur atkvæðisbærra fulltrúa greiðir henni atkvæði sitt. Aðalfundur er lögmætur sé löglega til hans boðað.

6. grein
Dagskrá aðalfundar:
 1. Skýrsla stjórnar.
 2. Reikningar.
 3. Umræða um skýrslu og reikninga.
 4. Tillögur og lagabreytingar.
 5. Ákvörðun árgjalds.
 6. Kosning formanns.
 7. Kosning stjórnar- og varamanna.
 8. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga.
 9. Önnur mál.
7. grein

Í stjórn sambandsins sitja fimm konur og tvær konur í varastjórn. Tvær stjórnarkonur eru kosnar á hverju ári. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára og eftir það má endurkjósa hann til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Kjörtími stjórnarkvenna er tvö ár. Endurkosning stjórnarkvenna og varastjórnar er heimil. Varastjórn er kosin til eins árs í senn. Stjórn skal halda a.m.k. tvo fundi á ári.

8. grein
Fjárhagsár sambandsins er starfsárið 1. september til 31. ágúst.
9. grein
Lögum sambandsins má aðeins breyta á aðalfundi. Lagabreytingar og aðrar tillögur frá stjórn skulu sendar með aðalfundarboði. Lagabreytingar og aðrar tillögur frá aðildarkórum skulu berast stjórn eigi síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Allar lagabreytingar og tillögur verða kynntar á vefsetri sambandsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 greiddra atkvæða.
10. grein
Sambandinu verður ekki slitið nema 3/4 fulltrúa á aðalfundi greiði því atkvæði. Á fundinum yrði tekin ákvörðun um ráðstöfun skulda og eigna sambandsins.
11. Grein

Gígjan rekur Tónverkasjóð Gígjunnar samkvæmt reglum sjóðsins. Allt að 30% af innheimtum árgjöldum Gígjunnar skulu lögð inn í Tónverkasjóð árlega.

Samþykkt á framhaldsaðalfundi landssambandsins, 20. október 2007.

Endurskoðuð og breytt á aðalfundi þann 31. október 2019.