Gígjan Lógó
 
Skođanakönnun
Hvađa rödd syngur ţú í ţínum kór?


12.03.2014 - Ljóđ og leikur

Kvennakórinn Vox feminae flytur íslensk sönglög og Vínarljóð í Salnum í Kópavogi laugardaginn 15. mars kl. 16.

Einsöngvari með kórnum er Sigrún Pálmadóttir sópran, Kristján Karl Bragason leikur á píanó og Hafdís Vigfúsdóttir á flautu. Listrænn stjórnandi er Margrét Jóhanna Pálmadóttir.

Á tónleikunum í Salnum mun Vox feminae flytja mörg af sínum uppáhaldslögum, íslensk sönglög í bland við alþekkt Vínarljóð eftir Brahms, Schubert og fleiri af þekktustu tónskáldum tónlistarsögunnar. Það er vorbragur yfir þessum tónleikum, enda daginn tekið að lengja og jafndægur á vori nálgast. Vox feminae fagnar því sérstaklega að fá til liðs við sig ungt tónlistarfólk, sem dvalið hefur langdvölum erlendis við nám og störf en hefur nú snúið heim og mun örugglega auðga íslenskt tónlistarlíf á komandi árum. Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona var fastráðin við óperuhúsið í Bonn í tæpan áratug en hefur ekki verið áberandi á íslenskum tónleikasviðum. Það er því mikill fengur að fyrir tónleikagesti að heyra þessa frábæru söngkonu sem nú nýverið flutti búferlum til Íslands. Hafdís og Kristján Karl hafa leikið saman sem dúó um árabil. Þau sóttu sér framhaldsmenntun í tónlist í Frakklandi, Hollandi og Noregi og eru nú búsett í Reykjavík þar sem þau starfa að list sinni og við kennslu.

Kvennakórinn Vox feminae fagnaði 20 ára starfsafmæli á síðasta ári og eru tónleikarnir í Salnum lokapunkturinn á hátíðarhöldum afmælisársins. Kórinn hefur ekki setið auðum höndum á afmælisárinu sem hófst á tónleikum á Myrkum músíkdögum 2013 þar sem kórinn frumflutti hátíðarmessu eftir Báru Grímsdóttur. Kórinn söng á hátíðarhöldum á Austurvelli þann 17. júní og tvær tónlistarhátíðir settu svip á sumarið, kammertónleikahátíð á Kirkjubæjarklaustri og Kirkjulistahátíð í Hallgrímskirkju. Haldnir voru hefðbundnir vor- og jólatónleikar og einnig kom kórinn fram með Kristjáni Jóhannssyni og fleirum á jólatónleikum í Hörpunni. Í haust spreytti kórinn sig á leiksviði í fyrsta sinn en kórfélagar tóku þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Húsi Bernhörðu Alba. Í nóvember var svo haldið í tónleikaferð til Parísar þar sem meðal annars var sungið við messu í Notre Dame kirkjunni. Fleiri spennandi verkefni bíða kórsins, því framundan er þátttaka í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands á þriðju sinfóníu Mahlers á Listahátíð nú í vor.

Tónleikarnir í Salnum hefjast kl. 16 og hægt er að kaupa miða á tónleikana á vef Salarins og Midi.is.  Verð aðgöngumiða er kr. 3.300,-

Nánari upplýsingar veita:

Hallveig Andrésdóttir                 hallveig@ati.is                        Sími 840 0750
Þuríður Helga Jónasdóttir           voxfeminae@voxfeminae.is     Sími 863 4404
Margrét J. Pálmadóttir               voxfeminae@voxfeminae.is     Sími 861 7328

 

NÁNARI UPPLÝSINGAR UM FLYTJENDUR

Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður árið 1993 af Margréti J. Pálmadóttur og hefur hún verið listrænn stjórnandi kórsins frá upphafi. Kórinn er til húsa í Sönghúsi kvenna; Domus Vox í Reykjavík sem er eina sönghús íslenskra kvenna og hefur kórinn tekið þátt í því frumkvöðlastarfi frá upphafi. Í sönghúsinu er einnig til húsa kvennakórinn Cantabile og Stúlknakór Reykjavíkur sem Margrét stjórnar einnig. 

Trúarleg tónlist ásamt íslenskum þjóðlögum og sönglögum hefur einkennt lagaval kórsins í gegnum tíðina. Vox feminae hefur lagt mikla áherslu á að kynna íslenska kvennakóratónlist með tónleikahaldi ásamt útgáfu geisladiska og hefur kórinn gefið út þrjá geisladiska: Mamma geymir gullin þín (2000), Himnadrottning (2003) og Ave Maria (2006). Kórinn hefur farið í tónleikaferðir til útlanda og unnið til silfurverðlauna í alþjóðlegri kórakeppni haldinni af Vatikaninu í Róm. 

Þann 19. júní 2010 kom út bókin „da capo“ um sem fjallar um sögu kórsins í máli og myndum ásamt myndum af kórkonum og örsögum þeirra úr kórstarfi. Bókin var gefin út í tilefni af 15 ára starfsafmæli kórsins. Henni er ætlað að veita innsýn í starf kvennakórs á Íslandi og þeirra kvenna sem í honum starfa.

Margrét Jóhanna Pálmadóttir hóf tónlistarferil sinn í Hafnarfirði. Hún stundaði söngnám hér á landi, í Vínarborg og á Ítalíu. Leiðbeinendur hennar voru m.a. Elísabet Erlingsdóttir, Svanhvít Egilsdóttir, Þuríður Pálsdóttir, Lina Pagliughi og Eugenia Ratti. Margrét er stofnandi Vox feminae, Stúlknakórs Reykjavíkur og fleiri kóra. Árið 2000 stofnaði hún í félagi við aðra sönghúsið Domus vox í Reykjavík sem sameinar undir einu þaki söngskóla og kórastarfsemi. Margrét hefur unnið mikið frumkvöðla- og hvatningarstarf í þágu stúlkna- og kvennakóra á Íslandi og hlaut fyrir það riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004. Sama ár sæmdi Svíakonungur hana riddarakrossi hinnar konunglegu norðurstjörnuorðu.

Sigrún Pálmadóttir sópransöngkona var fastráðin við óperuhúsið í Bonn í tæpan áratug auk þess sem hún tók þátt í óperuuppfærslum og verkefnum víðar, meðal annars í hlutverki Violettu í La Traviötu í uppfærslu Íslensku Óperunnar árið 2007. Vegna anna hefur Sigrún ekki verið áberandi á íslenskum tónleikasviðum og er því fengur að fyrir tónleikagesti að heyra þessa frábæru söngkonu sem nú nýverið flutti búferlum til Íslands

Kristján Karl Bragason nam píanóleik við Tónlistarskólann á Akureyri en síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Síðar nam hann í Frakklandi en árið 2012 lauk hann meistaraprófi frá konservatóríinu í Maastricht í Hollandi. Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar á ferli sínum, m.a. fyrstu verðlaun í fyrstu píanókeppni EPTA á Íslandi árið 2000 og fyrstu verðlaun í Prokofiev-spunakeppninni í Versölum árið 2007. Hann hefur í tvígang hlotið styrk úr minningarsjóði um Birgi Einarsson.

Hafdís Vigfúsdóttir lauk burtfararprófi í flautuleik frá Tónlistarskóla Kópavogs árið 2002 og BA-prófi frá Listaháskóla Íslands þremur árum síðar. Þá hlaut hún "einróma fyrstu einkunn" á lokaprófi frá Konservatoríinu í Rueil-Malmaison í Frakklandi, að loknu þriggja ára námi þar. Hún lauk sínu öðru BA-prófi frá Konunglega Konservatoríinu í Den Haag í Hollandi árið 2010 og árið 2013 meistaraprófi frá Norges Musikkhøgskole.

Hafdís og Kristján Karl hafa leikið saman sem dúó um árabil. Þau sóttu sér framhaldsmenntun í tónlist í Frakklandi, Hollandi og Noregi og eru nú búsett í Reykjavík þar sem þau starfa að list sinni og við kennslu. Frá árinu 2010 hafa þau staðið fyrir tónlistarhátíðinni Bergmál á Dalvík, heimabæ Kristjáns, í samvinnu við Grím Helgason.

« Til baka

Kíktu á okkur á Facebook