Gígjan landssamband íslenskra kvennakóra var stofnað 5. apríl 2003. Markmið með stofnun sambandsins er
að efla starfsemi og samstarf kvennakóra. Einnig að efla samskipti við kvennakóra erlendis og safna og
 miðla upplýsingum um starfsemi og sögu íslenskra kvennakóra.

Léttsveit Reykjavíkur heldur tvenna jólatónleika þann 8. des. í Langholtskirkju, kl. 14.00 og kl. 16.30. Að venju býður Léttsveitin upp á fjölbreytta dagskrá, létt og vel þekkt jólalög í bland við hátíðlegri, og á stundum minna þekkt lög. Höfundar eins og Ólafur Gaukur og Irvin Berlin koma við sögu og eins mun kórinn flytja nýlegt lag eftir undirleikara og hljómsveitarstjóra kórsins Tómas Guðna Eggertsson. Hljómsveitina skipa að þessu sinni, auk Tómasar Guðna á píanóið, þeir Þorgrímur Jónsson á bassa, Pétur Valgarð Pétursson á gítar og Magnús Trygvason Eliassen á trommur.

Að þessu sinni verður Pálmi Gunnarsson gestasöngvari.

Stjórnandi er sem fyrr hinn síkáti Gísli Magna.

Miðaverðið er kr. 3.500 og fer miðasala fram hjá kórkonum en einnig má hafa samband í gegnum netfangið lettmidar@gmail.com.

Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi í Langholtskirkju þann 8. desember
Lesa meira

Kæru landsmenn!

Í fyrsta sinn í sögu kóranna tveggja munu Samkór Reykjavíkur og Kvennakórinn Heklurnar sameina raddir sínar og halda hátíðlega jólatónleika þann 16. desember kl. 20:00. Tónleikarnir verða haldnir í Fella- og Hólakirkju og munu hinir valinkunnu píanóleikarar Arnhildur Valgarðsdóttir og Kristján Bragason spila undir af sinni landsþekktu list.

Kvennakórinn Heklurnar kemur frá Mosfellsbæ og er stjórnandi þeirra hún Dagný Jónsdóttir.

Samkór Reykjavíkur skipa Snæfellingar, Akranesingar, Reykvíkingar og ýmsir aðrir víkingar undir stjórn Guðrúnar Árnýjar Guðmundsdóttur.

Aðgangseyrir er 2000 kr. og er hægt að kaupa miða hjá kórfélögum. Einnig verða óseldir miðar til sölu við inngang. Frítt er fyrir börn á grunnskólaaldri.

Eftir tónleikana verður boðið upp á kaffi og smákökur.

Lesa meira

Hjá Kvennakór Akureyrar hófst haustönnin af fullum krafti 9. september. Æft er að jafnaði einu sinni í viku síðdegis á sunnudögum og kórstjóri er sem fyrr Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.

Aðalfundur félagsins var haldinn 16. eptember og var stjórnin endurkjörin með þeirri undantekningu að gjaldkerinn Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir lét af störfum en í hennar stað kom Sigríður Jónsdóttir.

Stjórnina skipa þá Þórunn Jónsdóttir formaður, Halla Sigurðardóttir varaformaður, Sigríður Jónsdóttir gjaldkeri, Valdís Þorsteinsdóttir ritari og Margrét Ragúels, meðstjórnandi.

Fyrsta verkefni haustsins var að syngja í Bleikri messu í Akureyrarkirkju 14. október en sú messa er helguð baráttunnni við krabbamein og var þar tekið við framlögum til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Næsta verkefni var svo að syngja á Ráðhústorgi á baráttufundi kvennafrídagsins 26. október.

Æfingahelgi var haldin 28. október á Hótel Natur á Svalbarðsströnd. Æfingar stóðu yfir allan laugardaginn og fram til klukkan 2 á sunnudeginum. Á laugardagskvöldinu var kvöldvaka og sameiginlegur kvöldverður. Æfingahelgin þótti takast mjög vel og var þar grunnur lagður að dagskrá fyrir jólatónleikana.

Næst á dagskrá hjá kórnum eru þá jólatónleikar og verða þeir haldnir kl. 20:00 fimmtudaginn 13. desember í Akureyrarkirkju. Nánar verður sagt frá þessum tónleikum þegar nær dregur.

Að lokum má geta þess að næsta sumar heldur kórinn í sína fimmtu utanlandsferð og verður þá stefnan tekin á kóramót í Verona á Ítalíu.

Lesa meira

Menningardagskrá Kvennakórs Garðabæjar verður haldin fimmtudaginn 25. október í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ og hefst kl. 20. Þar stíga á stokk listamenn úr Garðabæ og bjóða upp á fjölbreytta dagskrá í tali og tónum.

Sú hefð hefur skapast að bæjarlistarmaður Garðabæjar mætir á Haustvöku kórsins og kynnir sig og verk sín. Að þessu sinni er það djasssöngkonan María Magnúsdóttir en hún hefur verið áberandi í íslensku tónlistarlífi sl. ár, bæði sem flytjandi og lagahöfundur. María mun syngja nokkur vel valin lög á vökunni en meðleikari hennar er Agnar Már Magnússon, píanóleikari.

Eyþór Eðvarðsson, ræðumaður kvöldsins, er stjórnendaþjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun. Eyþór er með M.A. í vinnusálfræði og hefur birt fjölda greina í íslenskum og erlendum tímaritum, m.a. um tilfinningagreind, stjórnun, samskipti, breytingar, starfsánægju og vinnustaðarmenningu. Eyþór er þekktur fyrir skemmtilega og fræðandi fyrirlestra þar sem efnið er sett fram á sérlega grípandi hátt.

Það er einstaklega gaman og gefandi að fá að kynna framúrskarandi nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar ár hvert. Að þessu sinni koma fram Auður Indriðadóttir, nemandi á framhaldsstigi í víóluleik og Guðmundur Steinn Markússon, nemandi á miðstigi í píanóleik.

Kvennakór Garðabæjar syngur bæði við upphafi og í lok dagskrár, fjölbreytt og létt lagaval.

Haustvakan er orðin fastur liður í menningarlífi bæjarins og er þetta átjánda árið sem Kvennakór Garðabæjar og Menningar- og safnanefnd Garðabæjar standa að dagskrá sem þessari. Kórkonum og stjórnandanum, Ingibjörgu Guðjónsdóttur, er það sérstakt ánægjuefni að geta lagt sitt af mörkum til blómlegra og betra menningarlífs í bænum. Haustvakan hefst kl. 20 og er aðgangseyrir 1800 kr. en innifalið í miðaverði er kaffi og kruðerí að hætti kórkvenna.

Vert er að benda á að árlegir aðventutónleikar kórsins verða þriðjudagskvöldið 4. desember í Digraneskirkju og hvetur kórinn fólk til að tryggja sér miða í tíma hjá kórkonum eða á kvennakorgb@gmail.com.

Fylgist með fréttum af Kvennakór Garðabæjar á facebook síðu kórsin: https://www.facebook.com/kvennakorgb
Einnig er hægt að horfa á upptökur af kórnum á YouTube: https://www.youtube.com/user/kvennakorgardabaejar
Lesa meira