Heiðursviðurkenning 2012
Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir
Stjórn Kvennakórs Suðurnesja hefur ákveðið að tilnefna Aðalheiði Gunnarsdóttur.
Heiða, eins og við köllum hana, byrjaði í Kvennakór Suðurnesja haustið 1998. Árið 2000 var hún kosin í stjórn kórsins enda kom fljótt í ljós hversu dugleg hún er og vildi kórnum sínum allt hið besta. Hún sat í stjórninni til ársins 2005, þar af formaður kórsins frá 2001-2003. Hún var formaður kórsins þegar kórinn hélt Landsmót kvennakóra í Reykjanesbæ 3. - 5. maí 2002. Auk þessa hefur hún starfað í ýmsum nefndum innan kórsins, s.s. fjáröflunarnefnd og matarnefnd. Einnig hefur Heiða sinnt ýmsum störfum fyrir kórinn eins og að útbúa tónleikaskrár og auglýsingar, semja fréttatilkynningar, hafa umsjón með heimasíðu kórsins og tengsl við fjölmiðla. Á síðasta aðalfundi okkar var hún titluð upplýsingafulltrúi kórsins og má segja að hún hafi verið í því hlutverki meira og minna í mörg ár þó að þessi titill hafi ekki fylgt fyrr en nú.
Heiða er alltaf tilbúin að leggja á sig aukavinnu fyrir kórinn og gerir það með glöðu geði. Hún er góður félagi og passar vel upp á konurnar í sinni rödd en hún er einmitt raddformaður í messó-röddinni. Hún lætur nýjar konur sitja við hlið sér og leiðir þær áfram fyrstu skrefin af einstakri ljúfmennsku.
Á formannafundi á Landsmóti kvennakóra í Reykjanesbæ árið 2002 var ákveðið að stofna landssamband kvennakóra og var stofnfundur Gígjunnar haldinn 5. apríl 2003. Kvennakór Suðurnesja var stofnfélagi í landssambandinu og var Heiða ásamt fleiri stjórnarkonum fulltrúi kórsins á stofnfundinum (KKS átti fyrsta formann sambandsins, Guðrúnu Karlsdóttur). Heiða var í varastjórn Gígjunnar frá 2006 - 2008 og í aðalstjórn frá 2008 - 2011, þar af formaður frá 2009 - 2011. Hún hefur verið vefstjóri Gígjunnar frá 2010.
Það munar um svona konur eins og hana Heiðu okkar. Hún er okkur hinum góð fyrirmynd á svo margan máta. Þess vegna tilnefnum við hana.
Mynd: Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir með heiðursviðurkenninguna.