Á haustdögum 1992 voru nokkrar konur á námskeiði í kórskóla í Kramhúsinu hjá Margréti Pálmadóttur. Að loknu námskeiðinu og tónleikum í Kristskirkju fyrir jólin varð þeim öllum ljóst að þær yrðu að halda áfram. Margrét hafði átt þann draum að stofna stóran kvennakór og nú gerðist undrið. Auglýst var eftir fleiri félögum og 25. janúar 1993 var fyrsta æfing Kvennakórs Reykjavíkur haldin. Margrét var fyrsti stjórnandi kvennakórsins og á fjórum árum óx hann og dafnaði og gat af sér fleiri kóra og 1997 voru fimm kórar starfandi undir nafni Kvennakórs Reykjavíkur með 400 – 500 félaga, en þeir voru auk hans Vox Feminae, Léttsveitin, Gospelsystur og Senjórítur. Árið 2000 skiptust kórarnir í sjálfstæðar rekstrareiningar.
Segja má að frumkvöðlastarf kvennanna 1993 hafi hrundið af stað tónlistarævintýri. Þetta varð hvatning að stofnun fleiri kvennakóra sem glætt hafa tónlistarlíf um land allt æ síðan.
Stjórnendur Kvennakórs Reykjavíkur frá upphafi eru Margrét Pálmadóttir (1993 – 1997), Sigrún Þorgeirsdóttir (1997 – 2010) og Ágota Joó síðan 2010.