Salka kvennakór á Dalvík mætir á sitt fyrsta landsmót í vor. Hér er fréttapistill frá kórnum.
Af Sölku er það að frétta að 19 meðlimir af 21 koma á kóramót á Selfossi 29. apríl. Það er mikil tilhlökkun í hópnum og mikill tími hefur farið í að skipuleggja fjáröflun vegna ferðarinnar. Meðlimir hafa tekið sér ýmislegt fyrir hendur til að afla fjár. Leitað hefur verið til fyrirtækja á svæðinu sem hafa styrkt okkur.
Við höfum selt ýmsan varning eins og páskaegg, harðfisk og lakkrís.
Salka stóð fyrir flóamarkaði 12. febrúar sem við kölluðum Klemmuport og var þar vísað í verslunarmiðstöð okkar Dalvíkinga, Klemmuna. Skemmst er frá því að segja að markaðurinn sló í gegn og fengum við mikil og jákvæð viðbrögð frá söluaðilum og gestum sem þótti þetta skemmtileg nýbreytni. Það tókst svo vel til að ákveðið var að halda annan markað 12. mars næstkomandi og jafnvel stendur til að halda þriðja markaðinn áður en við leggjum í hann suður. Það er líka gaman að segja frá því að hugmyndina fengum við frá Jórukonum sem halda árlega markað á Selfossi. Miðað við viðtökur eru allar líkur á að þetta verði í framhaldinu árlegur viðburður hjá kórnum.
Salka er ungur kór, við erum því sérstaklega spenntar að mæta á okkar fyrsta kóramót og hitta aðrar kórkonur og mynda tengsl við aðra kvennakóra með frekara samstarf í huga.
Við hlökkum til að hitta ykkur á Selfossi í apríl.