Kvennakór Hornafjarðar heldur sína árlegu jólatónleika í Mánagarði miðvikudaginn 7. des kl 20.00. Á efnisskránni verða flutt jólalög og ljóð úr ýmsum áttum sum gömul og þekkt, en önnur nýrri. Til dæmis verða flutt tvö lög og ljóð eftir hornfirska höfunda. Annars vegar er það Með ljúfum klukknakliði eftir Sigjón Bjarnason við texta Guðbjarts Össurarsonar og hins vegar Jólalogi eftir Heiðar Sigurðsson við texta Kristínar Jónsdóttur.
Að tónleikunum loknum er svo komið að hinu margrómaða kaffihlaðborði Kvennakórsins. Það verður að venju hlaðið tertum, brauðréttum og öðru góðgæti. Aðgangseyrir á tónleikana og hlaðborðið er kr 2.000,- en frítt fyrir 12 ára og yngri í fylgd með fullorðnum.
Kvennakórinn hefur staðið í ströngu síðustu vikurnar og hefur nú lokið við upptökur á jólageisladiski sem mun koma út á næstu dögum. Diskurinn verður til sölu hjá kórkonum sjálfum og er nú þegar farið að taka niður pantanir á honum. Heiðar Sigurðsson stjórnandi kórsins sá um upptökur og Jónína Einarsdóttir er undirleikari á geisladiskinum og eins á tónleikunum.