Domus vox heldur tvenna tónleika í Norðurljósasal Hörpu á sumardaginn fyrsta, þann 19. apríl kl. 14 og 16.
Inntak tónleikanna er óður til lands og þjóðar þar sem sumarkomunni er fagnað með flutningi úrvals íslenskra söng- og ættjarðarlaga.
Listrænn stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir sem færir nú fram það fjölskrúðuga menningarstarf sem Sönghúsið Domus vox hefur fóstrað. Einsöngvarar sönghússins, kvennakórarnir Vox feminae og Cantabile ásamt Stúlknakór Reykjavíkur stilla saman strengi sína og syngja við undirleik hljómsveitar Agnars Más Magnússonar.
Margrét J. Pálmadóttir, söngkona og kórstjóri, stofnaði Sönghúsið Domus vox haustið 2000. Skólinn skartar öflugu stúlkna- og kvennakórastarfi og þar er einnig starfrækt ört vaxandi einsöngsdeild sem opin er jafnt körlum sem konum. Stúlknakór Reykjavíkur hefur vaxið og dafnað frá stofnun árið 1994 en kórinn skipa nú 120 stúlkur á aldrinum fimm til nítján ára. Þá hafa kvennakórarnir Cantabile og Vox feminae lifað blómlegu sönglífi hátt á annan áratug. Efnisval kvennakóranna hefur einkennst af trúarlegri tónlist og íslenskum þjóð- og sönglögum en jafnframt hefur Vox feminae lagt sérstaka rækt við samtímatónlist eftir íslensk tónskáld.
Söngfólk Domus vox mun fylla Norðurljósasal Hörpunnar söng á sumardaginn fyrsta. Má þar heyra margar þær perlur sem yljað hafa íslenskri þjóð gegnum tíðina og hér gefst tónleikagestum tækifæri til að syngja inn sumarið með kórunum.
Hægt er að nálgast miða í Domus vox á Laugarvegi 116 og á midi.is.