Léttsveit Reykjavíkur er stærsti kvennakór landsins og telur að jafnaði um 120 konur. Kórinn var stofnaður í september 1995 og er því að hefja 20. starfsár sitt. Mikið stendur til, afmælinu á að fagna allt afmælisárið. Afmælisgleðin hefst með jólatónleikum kórsins laugardaginn 6. desember í Langholtskirkju, kl. 14 og 17. Laugardaginn 14. febrúar 2015 verður sögusýning í Ráðhúsi Reykjavíkur og þangað eru allir velkomnir. Sýndir verða búningar, myndir og fleira og að sjálfsögðu stígur kórinn á svið. Afmælistónleikar verða laugardaginn 9. maí. Að loknum vortónleikum og upptökum flýgur kórinn til Englands þar sem afmælisgleðin heldur áfram. Dvalið verður á sveitahóteli fyrir utan London og að minnsta kosti tvennir tónleikar eru fyrirhugaðir þar.
Það er að venju mikið líf og fjör í Léttsveitinni, kórinn leggur áherslu á að syngja „létta“ tónlist af ýmsu tagi. Abba, Eurovision og íslensk og erlend dægurlög eru meðal annars á efnisskránni. Léttsveitin hefur ferðast víða, flakkað um landið og sungið í öllum landshlutum og erlendis hefur kórinn sungið á Kúbu, Ítalíu, í Tívolíinu í Kaupmannahöfn og Montserrat klaustrinu á Spáni svo eitthvað sé nefnt.
Jóhanna Þórhallsdóttir stjórnaði kórnum frá upphafi og til ársins 2012. Þegar hún kvaddi kórinn tók Gísli Magna við en Aðalheiður Þorsteinsdóttir hefur setið við píanóið frá upphafi. Aðalheiður hefur útsett mörg lög fyrir kórinn og einnig Gísli eftir að hann tók við. Aðalheiður fær aðra tónlistarmenn til liðs við sig á tónleikum og hefur alla tíð séð um að stjórna og útsetja fyrir hljómsveitina.
Kórkonur vonast til að sjá sem flesta á afmælisviðburðum Léttsveitarinnar.