Vox feminae syngur í Kristskirkju, Landakoti og Reykholtskirkju í Borgarfirði, undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur.
Vox feminae hefur mörg undanfarin ár haldið trúarlega tónleika í kringum allra heilagra messu og að þessu sinni heldur kórinn tónleika í Kristskirkju, Landakoti fimmtudaginn 29. október kl. 20 og í Reykholtskirkju í Borgarfirði laugardaginn 31. október kl. 16. Listrænn stjórnandi tónleikanna er Margrét J. Pálmadóttir.
Á tónleikunum flytur Vox feminae trúarlega tónlist eftir íslensk tónskáld. Yfirskrift tónleikanna er Kyrie og uppbygging þeirra skírskotun í hið hefðbundna messuform. Mörg þeirra verka sem flutt verða hafa fylgt kórnum lengi og má þar nefna verk Þorkels Sigurbjörnssonar og Atla Heimis Sveinssonar. Þá er kórnum sérstök ánægja að flytja Salve Regina eftir Hjálmar H. Ragnarsson og Beatus Vir eftir John A. Speight, en hið síðarnefnda frumflutti kórinn í alþjóðlegri kórakeppni á vegum Vatikansins í Róm árið 2000, þar sem kórinn vann til silfurverðlauna.
Vox feminae hefur lagt metnað sinn í að takast á við flutning nýrra verka eftir íslenska höfunda og það er ávallt mikið ánægjuefni þegar kórnum berast ný verk, raddsetningar eða umritanir sem lagaðar hafa verið að kvenröddum.
Margrét J. Pálmadóttir, stjórnandi kórsins, nýtur listamannalauna um þessar mundir og ákvað að verja hluta þeirra til kaupa á nýju tónverki eftir Báru Grímsdóttur. Vox feminae er það mikill heiður að fá á þessum tónleikum að flytja fyrstur kóra tvo kafla úr verkinu, Kyrie og Agnus Dei.
Miðaverð er kr. 2.500.-
Forsala aðgöngumiða er hjá kórfélögum og í síma 863 4404.
Í Reykholtskirkju verður einnig miðasala við innganginn.