Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið á Selfossi nú um helgina og verður þetta langstærsta kvennakóramót sem haldið hefur verið á Íslandi en um 600 konur úr 23 kórum eru skráðar á mótið. Þrennir tónleikar verða haldnir á landsmótinu, tvennir tónleikar verða á laugardaginn 30. apríl þar sem kórarnir koma fram hver fyrir sig. Þeir fara fram á tveimur stöðum, í Iðu og Selfosskirkju og hefjast báðir kl. 16. Á sunnudaginn 1. maí kl. 15 verða síðan hátíðartónleikar í Iðu þar sem kórarnir koma fram nokkrir saman í hópum og svo 600 konur í risastórum kór ásamt Stórsveit Suðurlands. Aðgangur er ókeypis á tónleikana á laugardeginum en miðaverð er aðeins kr. 1500 á hátíðartónleikana á sunnudeginum. Það er því tilvalið að fá sér bíltúr á Selfoss um helgina og mæta á flotta tónleika.