Nú líður að árlegum vortónleikum Jórukórsins og eru þeir aðeins fyrr á ferðinni nú en áður. Eins og undanfarin ár verður boðið upp á tvenna tónleika. Fyrri tónleikarnir verða í Þingborg með tilheyrandi kaffihúsastemmningu, kaffi og konfekti, sunnudaginn 22. mars kl. 20.00 og þeir seinni í Hveragerðiskirkju miðvikudaginn 25. mars kl. 20.00.
Lagavalið er mjög fjölbreytt, létt og skemmtilegt. Vinsæl íslensk og erlend dægurlög sem Stefán Þorleifsson hefur raddsett fyrir kórinn eru í aðalhlutverki. Tónleikagestir á öllum aldri ættu að finna þarna eitthvað við sitt hæfi.
Hljóðfæraleikarar með kórnum verða Sveinn Pálsson á gítar, Róbert Dan Bergmundsson á bassa og Stefán Ingimar Þórhallsson á trommur að ógleymdum stjórnandanum Stefáni Þorleifssyni á píanó/hljómborð, en þeir félagar mynda kjarnann í Djassbandi Suðurlands.
Tæplega 50 konur hafa æft saman í vetur undir stjórn Stefáns, sem nú er að ljúka sínu þriðja starfsári með kórnum og hlakka kórkonur mikið til að njóta afrakstursins með tónleikagestum. Þær ætla með þessu að gera sitt til að syngja inn vorið eftir þennan mikla og stormasama vetur. Jórur kunna öllum þeim sem styrkt hafa starfsemi kórsins bestu þakkir, ekki síst ykkur kæru tónleikagestir.