Kvennakór Reykjavíkur býður alla velkomna á aðventutónleika kórsins í Fella- og Hólakirkju.
Tónleikarnir eru að þessu sinni tileinkaðir Ingibjörgu Þorbergs, sem á sérstakan sess meðal þjóðarinnar. Í gegnum tíðina hefur þjóðin sungið lög hennar við börnin sín, dansað við þau, hlegið með þeim og grátið með þeim. Á 85 ára afmæli Ingibjargar hlaust kórnum sá heiður, að frumflytja tvö lög eftir hana. Lagið Með bjartsýni og brosi skýrir sig sjálft og þar segir Ingibjörg í tali og tónum að óskastjarnan sé alltaf til staðar, hvað sem á bjátar. Þú varst þar samdi Ingibjörg í minningu manns síns, Guðmundar Jónssonar, við ljóð Þorvaldar Þorsteinssonar. Í þessu undurfallega lagi segir Ingibjörg frá kærleik, minningum og væntingum og má með sanni segja að það lætur engan ósnortinn. Jólakötturinn eftir Jóhannes úr Kötlum „vekur í hjörtunum hroll“ í meðförum Ingibjargar, í snilldarútsetningu Vilbergs Viggóssonar, en hann útsetti þessi þrjú lög fyrir kórinn.
Kórinn mun flytja jólalög úr ýmsum áttum, bæði erlend og íslensk, allt frá Jesú mín morgunstjarna úr Hólabók frá 1619 til hins þekkta Jingle Bells eftir James Pierpont með óvæntri viðbót frá Tchaikovsky. Kórinn syngur einnig þætti úr Gloriu eftir Vivaldi og að sjálfsögðu Hin fyrstu jól eftir Ingibjörgu Þorbergs.
Stjórnandi kórsins er Ágota Joó. Píanóleikari á tónleikunum er Vilberg Viggósson. Gunnar Leó Pálsson leikur á slagverk, Helga Vala Sigurðardóttir á flautu og Valdimar Olgeirsson á kontrabassa. Sérstakur gestur er Sigríður Thorlacius.
Staður og stund: Í Fella- og Hólakirkju, fimmtudaginn 29. nóvember kl. 20:00 og laugardaginn 1. desember kl. 16:00.
Miðaverð í forsölu kr. 2500, miðar fást hjá kórkonum, í síma 8966468 eftir kl. 17:00 eða á kvkor@mmedia.is.
Miðaverð kr. 3000 við innganginn.