Kvennakór Akureyrar sækir Blönduós heim þann 25. maí næstkomandi en þá heldur kórinn sína fyrri vortónleika í Blönduóskirkju kl. 15:00. Síðari vortónleikarnir verða daginn eftir þann 26. maí í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri kl. 16:00. Báðir tónleikarnir hafa yfirskriftina „Sólin þaggar þokugrát“, en það er tilvísun í eitt af lögunum sem eru á efnisskránni í ár og hefur einnig skírskotun í komandi sumar og sól.
Kvennakór Akureyrar var stofnaður á vordögum 2001. Í kórnum starfa nú um 60 konur frá Akureyri og nærsveitum. Fyrsti stjórnandi Kvennakórsins var Björn Leifsson, en hann stjórnaði kórnum til 2003 þegar Þórhildur Örvarsdóttir tók við. Arnór Vilbergsson stjórnaði kórnum frá 2005 til 2008, en Jaan Alavere á haustönn 2008. Núverandi stjórnandi frá því í janúar 2009 er Daníel Þorsteinsson. Frá haustinu 2011 er formaður kórsins Una Þórey Sigurðardóttir.
Kórinn hefur á að skipa öflugum og skemmtilegum konum á öllum aldri sem eiga það sameiginlegt að hafa gaman af því að syngja saman, fyrir sig og aðra.
Tónleikar eru haldnir nokkrum sinnum á ári og farið í söngferðalög reglulega utan sem innanlands. Kórinn hefur þrisvar lagt land undir fót og farið utan, fyrst til Slóveníu, svo til Eistlands og síðasta haust fór kórinn vestur um haf til Kanada þar sem hann söng m.a. við hátíðarhöld á Íslendingadeginum í Gimligarði. Þessa dagana vinnur kórinn að undirbúningi landsmóts kvennakóra sem haldið verður vorið 2014.
Kvennakór Akureyrar er þekktur fyrir mjög fjölbreytt lagaval, hann tekst á við skemmtileg og ögrandi verkefni af ýmsu tagi og fer ekki alltaf troðnar slóðir í þeim efnum. Á efnisskránni í ár má finna íslensk þjóðlög, sótt í smiðju sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði, sænsk og norsk þjóðlög, amerískan gospelsöng, enskan madrigala frá 16. öld, aríu eftir Bach, Ave Maria eftir ungverskt tónskáld á 20. öld, jazzsmell frá Dave Brubeck kvartett og svo mætti lengi telja. Nýjasta lagið á efnisskránni var samið fyrir 10 ára afmæli Gígjunnar, landssambands íslenskra kvennakóra í apríl s.l. Lagið er eftir Þóru Marteinsdóttur við ljóð Huldu skáldkonu sem nefnist Breyttur söngur. Margir kvennakórar landsins hafa tekið þetta lag á sína efnisskrá en þetta verður frumflutningur Kvennakórs Akureyrar á því og líklega frumflutningur hér norðan heiða.
Tónleikarnir í Blönduóskirkju, laugardaginn 25. maí, hefjast sem fyrr segir kl. 15:00 en tónleikarnir í Hofi sunnudaginn 26. maí kl. 16:00. Aðgangseyrir er kr. 2500.- en ókeypis fyrir börn að 14 ára aldri. Kórstjóri og undirleikari er Daníel Þorsteinsson.