Æfingar hjá Kvennakór Akureyrar eftir jólafrí hófust 1. febrúar. Ástæðan fyrir að seinna var farið af stað en venjulega var sú að stjórnandinn, Jaan Alavere, lét af störfum og var hann kvaddur með trega og tárum. Í hans stað tók til starfa Daníel Þorsteinsson, píanóleikari og stjórnandi Kirkjukórs Laugalandsprestakalls með meiru.
Með nýjum stjórnanda kom nýtt prógram og því eins gott að halda sig að verki. Æfingahelgi var haldin dagana 13. – 14. mars. Vegna sparnaðarsjónarmiða var hún að þessu sinni haldin í heimabyggð en tókst engu að síður mjög vel.
Kökubasarar eru haldnir í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi þrisvar á vorönn og það sem af er hefur gengið mjög vel að selja og hnallþórur kórfélaga hafa runnið út eins og heitar lummur.
Vortónleikar kórsins eru fyrirhugaðir í Tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit laugardaginn 2. maí, nánari fréttir af þeim koma þegar nær dregur.
Vorferð kórsins verður síðan helgina 5. – 7. júní og að þessu sinni verður Neskaupsstaður fyrir valinu. Þar verða haldnir tónleikar 6. júní og sungið í sjómannadagsmessu 7. júní.