Kvennakór Suðurnesja kemur fram á kertatónleikum Karlakórs Keflavíkur í Ytri-Njarðvíkurkirkju í Reykjanesbæ fimmtudaginn 5. desember kl. 20:30. Einnig mun Barnakór Holtaskóla syngja á tónleikunum.
Á efnisskránni eru jólalög úr ýmsum áttum og munu kórarnir flytja nokkur lög hver fyrir sig en auk þess syngja þeir nokkur lög ýmist tveir eða þrír saman.
Stjórnandi Karlakórs Keflavíkur er Helga Bryndís Magnúsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og stjórnandi Barnakórs Holtaskóla er Styrmir Barkarson. Píanóleikari á tónleikunum er Geirþrúður Fanney Bogadóttir. Einsöngvari með karlakórnum er Kristján Þ. Guðjónsson.
Það verður ljúfur jólaandi á tónleikunum og komast gestir án efa í jólaskap.
Miðasala verður við innganginn og er miðaverð 2.500 kr.
Kórkonur gera ýmislegt fleira en að syngja. Laugardaginn 30. nóvember komu þær saman ásamt fjölskyldum sínum og skáru út og steiktu laufabrauð en það hafa þær gert mörg undanfarin ár í fjáröflunarskyni. Að þessu sinni voru steiktar um 1300 kökur. Það er alltaf mikil stemmning í laufabrauðsgerðinni, hlustað á jólalög, sungið og spjallað.