Kvennakór Kópavogs mun halda sína árlegu vortónleika þann 22. mars n.k. í Digraneskirkju. Þema tónleikanna er suðræn sveifla, tangótaktur og latínó dansar og sungið um ástir og örlög. Lagavalið er fjölbreytt, suðrænt og seiðandi, taktfast og tregafullt með dillandi tangótakti í bland. Lögin sem flutt verða eru sem dæmi „Tvö ein í tangó“, „Um þig“, „La Cucaracha“, „El Cumbanchero“, „Bei mir bist du schein“, „Volare“ ofl. Á tónleikunum koma fram gestasöngvararnir Bogomil Font og Kristjana Stefánsdóttir. Einnig mun Stúlknakór Kópavogs syngja. Stjórnandi kórsins er Gróa Hreinsdóttir. Píanóundirleik annast Helga Laufey Finnbogadóttir, á bassa leikur Þorgrímur Jónsson og Axel Haraldsson slær á trommur.
Tónleikarnir eru jafnframt liður í fjáröflun kórsins fyrir ferð til Ísafjarðar í apríl n.k. og verður Kvennakór Ísafjarðar þar sóttur heim. Von er á að Ísafjarðarbær verði þéttskipaður syngjandi konum því einnig verða Kvennakór Öldutúns í Hafnarfirði og kór frá Levanger í Noregi sem heitir Corevie staddir þar í heimsókn. Á Ísafirði verða haldnir stórtónleikar þessara fjögurra kóra.
Mikið fjör hefur verið í Kvennakór Kópavogs við æfingar og val á búningum fyrir tónleikana í Digraneskirkju. Í takt við suðræna tónlist ætlar kórinn að halda óborganlega skemmtilega tónleika. Tónleikarnir hefjast klukkan kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:15. Miðar verða seldir við innganginn og hjá kórfélögum og er aðgangseyrir aðeins kr. 2.000,-. Heimasíða kórsins er www.kveko.is.