Næstkomandi mánudagskvöld, 14. september, heldur Kvennakór Suðurnesja kynningar- og skemmtikvöld í Listasmiðjunni á Ásbrú kl. 20. Allar konur eru velkomnar en kórinn vantar fleiri hressar og skemmtilegar konur í sínar raðir og býður því sérstaklega velkomnar konur sem hafa gaman af söng.
Kvennakór Suðurnesja var stofnaður 1968 og er hann elsti starfandi kvennakór landsins. Kórinn er skipaður konum alls staðar að af Suðurnesjum og vonast kórfélagar til að sjá konur úr öllum bæjarfélögunum á Suðurnesjum á mánudagskvöldið. Starfið hefur verið sérstaklega gróskumikið undanfarin ár, en meðal annars tók kórinn þátt í kórakeppni sem fram fór á Riva del Garda á Ítalíu í október 2007 og vann þar til verðlauna í gullflokki. Í febrúar 2008 hélt kórinn síðan upp á 40 ára afmæli sitt með stórtónleikum í Íþróttaakademíunni ásamt Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og einsöngvurum, auk þess sem fjöldi kvenna sem hafa sungið með kórnum í gegnum tíðina tóku þátt í tónleikunum. Árið 2004 fór kórinn í söngferðalag til Ungverjalands og árið 2000 var kórnum boðið sem gestakór í kórakeppni sem fram fór í Cork á Írlandi. Auk þessa tekur kórinn þátt í Landsmótum kvennakóra sem haldin eru á þriggja ára fresti á mismunandi stöðum á landinu, en Kvennakór Suðurnesja hélt landsmót í Reykjanesbæ árið 2003. Kórinn var einn af stofnendum Gígjunnar, landssambands kvennakóra á Íslandi og kom fyrsti formaður sambandsins, Guðrún Karitas Karlsdóttir, einmitt frá Kvennakór Suðurnesja.
Kvennakórinn heldur a.m.k. tvenna til þrenna tónleika á ári, auk þess að taka þátt í ýmsum uppákomum svo sem Ljósanótt og Þrettándagleði í Reykjanesbæ. Kórinn tók einmitt virkan þátt í nýliðinni Ljósanótt þar sem hann söng m.a. á tónleikum í Svarta Pakkhúsinu á fimmtudagskvöld, á útisviðinu á föstudags- og laugardagskvöld og á hátíðartónleikum í Fjölbrautaskólanum á sunnudeginum ásamt öðrum kórum og listamönnum. Auk þess kom kórinn fram í Duushúsum og Íþróttaakademíunni.
Kvennakór er ekki bara vettvangur söngs, heldur er þetta líka skemmtilegur félagsskapur kvenna og gera kórfélagar ýmislegt skemmtilegt saman. Auk þess að fara í árlegar æfingabúðir þar sem vinna og skemmtun fara vel saman, koma konurnar t.d. alltaf saman ásamt fjölskyldum fyrir jólin og gera laufabrauð, sem síðan er selt til fjáröflunar fyrir kórinn. Einnig er haldið lokahóf á vorin og ýmislegt fleira eftir því sem tilefni eru til, en kórinn fer alla jafna í frí yfir sumartímann og á stórhátíðum.
Við hvetjum allar konur til að kíkja á Kvennakórinn á mánudagskvöldið og kynna sér starfsemi hans.