Það er í nógu að snúast hjá Kvennakór Akureyrar. Þær byrjuðu á því að hrista hópinn saman og efndu til hópferðar að Húsabakka í Svarfaðardal 20. - 21. september. Þær héldu síðan æfingadag 26. október þar sem æft var jöfnum höndum fyrir hina árlegu styrktartónleika fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar sem verða haldnir 7. desember í Akureyrarkirkju og fyrir Landsmót kvennakóra sem verður haldið á Akureyri 9. - 11. maí 2014.
Hópefli að Húsabakka 20. - 21. september
Hauststarfið hjá Kvennakór Akureyrar fór vel af stað og að þessu sinni var ákveðið að byrja á því að hrista hópinn saman og bjóða nýjar konur sérstaklega velkomnar. Í því skyni var efnt til hópferðar að Húsabakka í Svarfaðardal föstudaginn 20. sept og gist þar í eina nótt. Áður höfðu kórfélagar í um það bil 8 manna hópum tekið þátt í leik sem byggðist á því að hittast, leysa einhver verkefni saman og safna með því stigum. Verkefnin voru mynduð og send inn til dómara og á Húsabakka voru síðan birt úrslit og haldin myndasýning. Landsmótsnefnd fyrir Landsmót kvennakóra sem haldið verður í maí kynnti tilhögun og verkefni fyrir undirbúning mótsins. Að síðustu komu tveir vaskir Dalvíkingar og tóku fyrir hópefli með alls kyns æfingum og leikjum undir berum himni. Ferðin tókst afar vel og komu kórfélagar til baka með bros á vör og vel undirbúnir fyrir fyrstu söngæfinguna þann 22. september.
Æfingadagur 26. október
Æfingadagur var haldinn í Valsárskóla á Svalbarðseyri laugardaginn 26. október. Æft er nú jöfnum höndum fyrir hina árlegu Styrktartónleika Mæðrastyrksnefndar og fyrir landsmót kvennakóra í vor. Daníel kórstjóri fékk til liðs við sig Helenu Guðlaugu Bjarnadóttur sópransöngkonu og æfði hún sópranraddir á meðan hann æfði altraddirnar. Æfingar hófust kl. 9 að morgni og stóðu til kl. 15. Kvenfélag Svalbarðsstrandar sá um veitingar af sinni alkunnu snilld og óhætt er að segja að allir fóru heim ánægðir á sál og líkama að æfingadeginum loknum.
Styrktartónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar
Kvennakór Akureyrar heldur sína 11. tónleika til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar þann 7. desember næstkomandi kl. 16:00 í Akureyrarkirkju. Fyrstu styrktartónleikarnir voru haldnir 4. desember 2003 og síðan þá hafa fjölmargir kórar og tónlistarmenn tekið þátt í þessum tónleikum. Þá hafa allir undantekningalaust gefið sína vinnu og ágóðinn því runnið beint til Mæðrastyrksnefndar Akureyrar.
Það er ánægjulegt að segja frá því að í ár munu tveir kvennakórar ganga til liðs við okkur til að styrkja þetta góða málefni, þ.e. Kvennakórinn Embla og Kvennakórinn Sóldís.
Kvennakórinn EMBLA var stofnaður 1. september 2002 með það að markmiði að taka til flutnings klassísk og nútíma verk fyrir kvennaraddir. Stofnandi og jafnframt stjórnandi kórsins er Roar Kvam. http://www.kvam.est.is/embla/
Kvennakórinn Sóldís var stofnaður haustið 2010 af þremur konum í Skagafirði, þeim Drífu Árnadóttur á Uppsölum, Írisi Olgu Lúðvíksdóttur í Flatatungu og Sigurlaugu Maronsdóttur á Sauðárkróki. Kórstjóri er Sólveig Sigríður Einarsdóttir og undirleikari Rögnvaldur Valbergsson. Kórinn æfir í Menningarhúsi Skagfirðinga í Miðgarði. http://www.soldisir.123.is