Kvennakór Hafnarfjarðar býr sig undir að lýsa upp aðventuna með tónleikum sem haldnir verða í Víðistaðakirkju miðvikudaginn 4. desember n.k. og bera yfirskriftina Bernskujól.
Árið sem er að líða hefur verið mjög viðburðaríkt hjá kórnum og starfsemi hans blómleg. Kórkonur stóðu fyrir flóamarkaði í Gúttó sem var vel sóttur og bökuðu gómsætar kökur sem þær seldu í Samkaupum. Í maí hélt kórinn sína hefðbundnu vortónleika og í sumarbyrjun lögðu kórfélagar land undir fót og héldu í vel heppnað tónleikaferðalag til Slóveníu. Við upphaf vetrarstarfs nú í haust bættist kórnum öflugur liðsstyrkur þegar konur úr Kvennakór Öldutúns og fleiri söngelskar konur gengu til liðs við kórinn. Það er því óhætt að segja að kórinn hafi gengið tvíefldur inn í vetrarstarfið og horfi björtum augum til framtíðarinnar.
Það verður spennandi að sjá og heyra hvernig hinn „nýi“ og vaxandi kór mun hljóma á þessum jólatónleikum. Á dagskrá verða klassísk kirkjulög, gospelsálmar, hefðbundnir jólasálmar og ýmis jólalög sem við þekkjum frá bernsku okkar. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir. Píanóleikur er í höndum Antoníu Hevesi og flautuleikari er Kristrún Helga Björnsdóttir.
Handverkskonan Arndís Sigurbjörnsdóttir mun skreyta Víðistaðakirkju í tilefni tónleikanna og skapa jólastemmningu með jólasveinum og ýmsum kynjaverum úr smiðju sinni.
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar verða í Víðistaðakirkju miðvikudaginn 4. desember og hefjast kl. 20:00. Miðaverð er 2.500 kr. og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri. Tónleikagestum verður boðið upp á kaffi og konfekt í hléi.
www.kvennakorinn.org