Nú er komið að árlegum jólatónleikum Kvennakórs Reykjavíkur og í þetta sinn hefur kórinn valið yndislega kirkju, Kristskirkju í Landakoti. Tónleikarnir verða miðvikudaginn 3. desember kl. 20.00 og sunnudaginn 7. desember kl. 16.00.
Yfirskrift tónleikanna er Ave Maria og ber efnisval keim af því heiti. Við munum flytja bland hátíðlegra laga og jólalegra; má þar nefna Ég vil lofa eina þá eftir Báru Grímsdóttur, lög úr Söngvasveig eftir Britten, Ave Maria eftir Carrillo, Salutatio Marie eftir Jón Nordal, Vögguljóð Maríu eftir Reger og Ó, helga nótt eftir Adam.
Stjórnandi kórsins er sem fyrr Sigrún Þorgeirsdóttir, einsöngvari er hin frábæra sópransöngkona Elín Ósk Óskarsdóttir og Elísabet Waage mun leika með á hörpu.
Við höfum einsett okkur að halda miðaverði í lágmarki til þess að sem flestir geti séð sér fært að koma og eiga hátíðlega stund með okkur fjarri amstri dagsins. Tvöfaldir styrktarfélagar kórsins eru að sjálfsögðu á sérkjörum, en í almennri sölu kostar miðinn kr. 2000 og við innganginn mun miðinn kosta kr. 2500.
Hægt er að kaupa miða í forsölu hjá kórkonum, í síma 896 6468 (eftir kl. 16) eða með því að senda tölvupóst á netfangið: kvkor(hjá)mmedia.is
Megi Maríuversin okkar færa þér birtu í skammdeginu.
Kær kveðja,
Kvennakór Reykjavíkur