Nú líður að lokum vetrarstarfs Jórukórsins. Að þessu sinni heldur kórinn tvenna tónleika. Föstudaginn 30. april í Selfosskirkju kl. 20.00 og í Félagsheimilinu Árnesi sunnudaginn 2. maí kl. 16.00. Í Árnesi verður kaffihúsastemning ráðandi og tónleikagestum boðið upp á kaffi og konfekt.
Helena R. Káradóttir tók aftur við stjórn kórsins s.l. haust, eftir 5 ára hlé og undir stjórn hennar hefur kórstarfið blómstrað í vetur. Efnisskráin er mjög fjölbreytt og með léttu yfirbragði. Þar er að finna rómantískar ballöður í bland við sveiflu og lagasyrpuna Óður til Arethu Franklin. Tvær glæsilegar útsetningar kórstjórans á vinsælum lögum eftir Selfyssinga verða frumfluttar.
Undirleik á píanó annast Þórlaug Bjarnadóttir og sérstakur gestasöngvari er Halla Dröfn Jónsdóttir sópran. Eins og oft áður leggja góðir hljóðfæraleikarar kórnum lið en það eru þeir Jóhann Stefánsson á trompet, Smári Kristjánsson á bassa og Gunnar Jónsson á slagverk.
Það verður bara gaman á tónleikum Jórukórsins í ár. Hlökkum til að sjá ykkur í Selfosskirkju og Árnesi.
Aðgangseyrir er kr. 2000 fyrir 13 ára og eldri.