Léttsveit Reykjavíkur heldur sína sívinsælu aðventutónleika í Eldborgarsal Hörpu fyrsta sunnudag í aðventu, 27. nóvember kl. 16. 130 konur syngja nú með Léttsveitinni sem er áreiðanlega stærsti kór landsins. Með Léttsveitinni að þessu sinni koma fram einsöngvararnir Valgerður Guðnadóttir, Hildigunnur Einarsdóttir og Ívar Helgason en þau eru öll af kynslóð ungra söngvara sem hafa getið sér gott orð í tónlistarlífi landsins. Hljómsveit kórsins skipa fiðluleikarinn Gréta Salóme Stefánsdóttir, Tómas R. Einarsson bassaleikari, Kjartan Guðnason trommuleikari og Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Stjórnandi á tónleikunum er Jóhanna V. Þórhallsdóttir. Á dagskránni verða gömul og ný jólalög m.a. lag eftir dr. Þórunni Guðmundsdóttur. Hluti dagskrárinnar er til heiðurs Ingibjörgu Þorbergs og mun kórinn syngja nokkur af hennar yndislegu lögum, og jafnframt frumflytja eftir hana nýtt lag. Ingibjörg mun verða heiðursgestur Léttsveitarinnar á tónleikunum. Miðasala er á midi.is og harpa.is