Kvennakór Reykjavíkur fagnar langþráðu vori og býður gesti hjartanlega velkomna á tónleika í Gamla bíói, fimmtudaginn 7. maí kl. 20:00 og laugardaginn 9. maí kl. 18:00.
Að þessu sinni er umgjörð tónleikanna sérstaklega glæsileg í nýuppgerðu Gamla Bíói sem um árabil var stærsta og glæsilegasta samkomuhús Reykvíkinga. Húsið lét P. Petersen, sem ávallt var af Reykvíkingum kallaður Bíópetersen, byggja árið 1927 eftir evrópskum fyrirmyndum og var ekkert til þess sparað. Gamla Bíó hefur alla tíð þjónað listinni, bæði sem kvikmyndahús, samkomuhús og nú síðast sem óperuhús enda hefur alltaf þótt einstaklega góður hljómburður í húsinu. Nú hefur húsið verið endurnýjað og uppgert og það er heiður fyrir Kvennakór Reykjavíkur að stíga þar á stokk með sína tónleika.
Efnistökin tengjast 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi. Við syngjum konum til heiðurs og er æviskeið kvenna viðfangsefnið. Tónlistin er fjölbreytt. Sungið er um barnæskuna, ástina og lífið með öllum sínum blæbrigðum og jafnréttisbaráttuna sem ekki sér fyrir endann á þó mikið hafi áunnist undanfarin 100 ár. Senjórítur, kór eldri kvenna sem margar muna tímana tvenna, taka lagið með okkur og syngja um efri árin og Gissur Páll Gissurarson tenór flytur óð til kvenna. Stjórnandi kórsins Agota Joo nýtur aðstoðar Þórunnar Ernu Clausen við að setja sýninguna saman en Þórunn er jafnframt sögumaður. Undirleik annast hljómsveit undir stjórn Vilbergs Viggóssonar.
Miðaverð er 3.900 kr. og fer miðasala fram á Midi.is.
Verð fyrir 6 - 18 ára er kr. 2.500.
Frítt fyrir 6 ára og yngri.