Kvennakór Garðabæjar heldur til Svíþjóðar í lok september til þátttöku í sænsku kvennakóramóti
Þessa dagana er Kvennakór Garðabæjar að undirbúa sig fyrir þátttöku í kvennakóramóti sem fram fer dagana 29. september til 2. október næst komandi í Uppsala í Svíþjóð.
Damkörfestival 2016 er haldið af sænska kvennakórnum La Cappella sem fagnar þrjátíu ára afmæli sínu á þessu ári. Alls taka þátt í mótinu tuttugu og sex sænskir kórar auk tveggja gestakóra sem sérstaklega eru boðnir á mótið, þ.e. kvennakórinn Embla frá Noregi og Kvennakór Garðabæjar frá Íslandi.
Dagskrá mótsins er þéttsetin en meðal viðburða eru hátíðartónleikar í Konsert & Kongress höllinni, tónleikamaraþon í Baptisakirkjunni, kórtónleikar í Dómkirkju Uppsala og „workshops" með þekktum kórstjórendum Norðurlandanna.
Það er sannarlega ómetanlegt tækifæri fyrir kórkonur Kvennakórs Garðabæjar, bæði að kynnast norrænni kvennakórhefð sem er með þeim fremstu í dag og ekki síður að efla tengslanetið.
Fréttir af ferðinni verða jafnóðum settar inn á fésbókarsíðu kórsins. Stefnt er á að halda opna æfingu áður en haldið er til Svíþjóðar sem verður auglýst þegar nær dregur.
Sautjánda starfsár Kvennakórs Garðabæjar sem nú er hafið verður fyrir utan Svíþjóðarferð, með hefðbundnu sniði, aðventutónleikar, Þorravaka og vortónleikar auk ýmissa söngviðburða yfir starfsárið.