Menningarsjóður Hlaðvarpans úthlutaði rúmlega 10 milljónum króna til menningarmála kvenna þann 14. janúar. Hæsta styrkinn í ár hlaut Kvennakórinn Vox Feminae, eina milljón króna. Kórinn hlýtur styrkinn til að fela Báru Grímsdóttur tónskáldi að semja hátíðarmessu fyrir kvennakór og til að flytja messuna, hljóðrita hana og gefa út á geisladisk. Jórukórinn hlaut einnig myndarlegan styrk, hálfa milljón króna, vegna Landsmóts íslenskra kvennakóra 2011 sem kórinn heldur á Selfossi dagana 29. apríl - 1. maí nk.
Í tilkynningu frá Hlaðvarpanum kemur fram að í þessari úthlutun hafi verið veittir 19 styrkir en alls hafi borist yfir sjötíu umsóknir. Við úthlutun hafi þess verið gætt að styrkirnir nýttust sem flestum konum og haft hafi verið í huga að sem flest svið menningar njóti stuðnings. Gígjan fagnar því að þessi verkefni hafi hlotið svo myndarlega styrki og óskar Vox Feminae og Jórukórnum innilega til hamingju með þessa styrki.
Á meðfylgjandi mynd eru fulltrúar Vox Feminae og Jórukórsins við afhendingu styrkjanna.