Vortónleikar Vox feminae, Þar skein sól í heiði, verða haldnir í Grensáskirkju kl. 15 nk. laugardag, þann 26. mars. Listrænn stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir og Vox feminae til fulltingis hljóma gullnar raddir yngismeyja úr Stúlknakór Reykjavíkur, auk fleiri góðra gesta. Undirleik annast Antonia Hevesi.
Meðan Vetur konungur þrjóskast við að sleppa tökum sínum á ísaköldu landi leitar hugur kórsystra til Veróna og Feneyja, þangað sem för kórsins er heitið í byrjun sumars og hyggjast þær nú freista þess að seiða sjálfa Vorgyðjuna að Íslandsströndum. Verkin sem flutt verða á tónleikunum eru jafnt á andlegum sem veraldlegum nótum, þar má heyra blíðlegt ákall til móður Guðs á jörð í verkum þeirra Schuberts, Kaldalóns og Biebl ásamt alþýðlegum sönglögum um ástarbrall á búðarloftum og í Skólavörðuholtinu fyrir margt löngu síðan. Dagskráin höfðar því til allra þeirra sem dreymir um ást og vor og láta hvorki veður né ófærð aftra sér frá því að njóta sín á tónleikum.
Miðaverð er kr. 1.500 og þeir fást við innganginn. Forsala aðgöngumiða er hjá kórfélögum og í síma 863 4404.