Kvennakór Akureyrar heldur tvenna tónleika um næstu helgi. Tónleikarnir Dívur og drottningar sem haldnir voru s.l. vor verða endurteknir, fyrst í Hömrum í Hofi 31. október kl. 16:00 og svo í Ýdölum, Aðaldal 1. nóvember kl. 15:00.
Í dagskránni er lögð áhersla á metnaðarfullar útsetningar popplaga, í bland við kórlög úr ýmsum áttum.
Einsöngvarar verða Ívar Helgason og Þórhildur Örvarsdóttir.
Aladár Rácz píanóleikari og Pétur Ingólfsson bassaleikari verða meðleikarar, Daníel Þorsteinsson stjórnar.
Aðgangseyrir kr. 3000 en ókeypis fyrir börn undir 14 ára. Miðasala á www.tix.is.
Kórinn hefur fengið til samstarfs við sig Kvenfélag Aðaldæla, en þær ágætu konur verða með kaffisölu í hléi á tónleikunum í Ýdölum. Kvenfélagskonurnar reiða fram krásir sem seldar verða fyrir 1300 krónur á mann, en allur ágóði af veitingasölu rennur í sjóð Kvenfélagsins. Kvenfélagið er reyndar ekki með posa, svo munið að taka með reiðufé.
Kvennakór Akureyrar hefur nóg að gera eins og oft áður. Haustið fór vel af stað, nýjar konur bættust í hópinn og aðrar hættu eins og gengur og eru nú skráðar 59 konur í kórinn.
Nóg verður um að vera í allan vetur og sungið verður á Akureyri og í nágrannasveitum.
Á 40 ára afmæli kvennafrídags 24. október tók kórinn þátt í tónleikunum Norðlenskar konur í tónlist sem haldnir voru í Akureyrarkirkju. Flutt var tónlist íslenskra og erlendra tónlistarkvenna sem þær hafa samið og flutt ógleymanlega.
Fram komu:
Helga Kvam, píanó
Kristjana Arngrímsdóttir, söngur
Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla og söngur
Þórhildur Örvarsdóttir, söngur
Sérstakir gestir voru:
Kvennakór Akureyrar undir stjórn Daníels Þorsteinssonar
Ella Vala Ármannsdóttir, horn
Margrét Arnardóttir, harmóníka
Ragnheiður Gröndal, söngur og píanó
Næsta sumar verður svo haldið í fjórðu tónleikaferð kórsins á erlenda grund. Að þessu sinni er ferðinni heitið til Króatíu dagana 28. júní til 6. júlí og flogið í beinu flugi frá Akureyri til Ljubljana í Slóveníu og ekið þaðan í átt að Adriahafi til bæjarins Vrsar á króatísku ströndinni, þar sem gist verður allar 8 næturnar.