Aðventutónleikar kóra Margrétar Pálmadóttur í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 3. desember kl. 20:30.
Kvennakórarnir Vox feminae og Cantabile ásamt elstu stúlkum Stúlknakórs Reykjavíkur halda sameiginlega aðventutónleika í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 3. desember næstkomandi.
Tónleikarnir eru helgaðir trúarlegri tónlist frá ýmsum tímum tileinkaðri aðventu og jólum. Kórfélagar eru alls um 120 talsins og flytja öll verkin a capella eða án undirleiks, í minni hópum eða allar saman.
Efnisskrá tónleikanna ber merki liðinna alda í Mið-Evrópu þar sem samhljómur raddanna naut sín til fulls í endurómi hljómmikilla kirkna.
Margrét Pálmadóttir er stofnandi og stjórnandi kóranna þriggja og hafa þeir allir ferðast með henni bæði innan lands og utan.
Það verður hátíðleg stemming í Hallgrímskirkju á þessum tónleikum og því er tilvalið að koma og hlýða á gömul jólalög við kertaljós í hinum undurfagra hljómi og notalega umhverfi Hallgrímskirkju.
Tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Miðasala er í Domus vox í síma 511 3737, hjá kórfélögum og á midi.is.