Vox feminae hefur mörg undanfarin ár tekið þátt í árlegum styrktartónleikum Caritas. Að þessu sinni syngur kórinn meðal annars með þeim Kristjáni Jóhannssyni stórtenór og Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sópran sunnudaginn 15. nóvember kl 16.00.
Þetta verða 16. styrktartónleikar Caritas sem hljómað hafa reglulega í Kristskirkju við Landakot frá árinu 1994.
Í ár mun allur ágóði tónleikanna renna til Mæðrastyrksnefndar. Margir af helstu listamönnum þjóðarinnar leggja þessu þarfa málefni lið.
Efnisskrá tónleikanna er glæsileg og fluttar verða skærustu perlur tónbókmenntanna ásamt einsöngvurum, strengjasveit og kórum.
Caritas tónleikarnir marka upphaf aðventunnar fyrir marga og fjölmargir gestir koma ár eftir ár á þessa eftirsóttu tónleika, njóta fagurra lista og leggja góðu málefni lið. Í ár verður hvergi slegið af kröfum og má líklega lofa bestu tónleikum til þessa enda hefur flytjendahópurinn aldrei verið glæsilegri. Þetta eru án efa einir af bestu tónleikum ársins.
Kristján Jóhannsson og Diddú færa þér aðventuna ásamt Rúnari Guðmundssyni, Guðnýju Guðmundsdóttur, Ara Þór Vilhjálmssyni, Helgu Þórarinsdóttur, Gunnari Kvaran, Hávarði Tryggvasyni, Einari Jóhannessyni, Eiríki Erni Pálssyni, Hilmari Erni Agnarssyni, Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur.
Miðaverð er kr. 3000.- og upplýsingar um miðasölu er að finna hér