Nú er vetrarstarfið að fara í gang hjá Kvennakór Suðurnesja. Kórinn hóf nýtt starfsár með því að syngja á Ljósanótt þar sem kórinn kom fram í Listasal Duushúsa síðastliðinn laugardag.
Um næstu helgi munu kórkonur heimsækja stöllur sínar í Kvennakórnum Norðurljósum á Hólmavík. Kórarnir munu halda sameiginlega tónleika í Hólmavíkurkirkju laugardaginn 12. september kl. 16:00. Kórarnir munu syngja nokkur lög hvor fyrir sig en sameinast síðan í Hljómasyrpu sem inniheldur lög eftir Gunnar Þórðarson, en eins og flestir vita fæddist Gunnar á Hólmavík og ólst þar upp fyrstu árin en fluttist síðan til Keflavíkur þar sem hann bjó í mörg ár. Það er því vel við hæfi að þessir tveir kórar flytji lög þessa ástsæla tónskálds sem tengir Hólmavík og Suðurnesin á tónlistarsviðinu. Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og meðleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir. Stjórnandi Kvennakórsins Norðurljósa er Sigríður Óladóttir og meðleikari er Viðar Guðmundsson.
Áður en Kvennakór Suðurnesja heldur norður í land ætla kórkonur að halda opna æfingu í Víkinni á horni Hafnargötu og Faxabrautar í Reykjanesbæ, miðvikudaginn 9. september kl. 20:00. Kórinn leitar að hressum og söngelskum konum sem vilja taka þátt í skemmtilegu starfi og eru nýjar konur boðnar velkomnar. Boðið verður upp á veitingar að hætti kórkvenna.
Æfingar eru í Víkinni á miðvikudögum kl. 20:00 og raddæfingar á mánudögum kl. 20:00.