Kvennakór Hornafjarðar var stofnaður 9. september 1997 en áður söng kórinn í eitt ár undir nafni Leikfélags Hornafjarðar. Kórinn hefur starfað af fullum krafti öll þessi ár.
Stjórnandi kórsins er Heiðar Sigurðsson. Undirleikari er, og hefur verið frá stofnun kórsins, Jónína Einarsdóttir.
Fjöldi kórfélaga í gegnum árin hefur verið á bilinu 20 - 45. Lagaval hefur verið mjög fjölbreytt og einkennst af léttleika og áskorunum.
Stærsta verkefni kórsins til þessa er vafalítið sjöunda landsmót íslenskra kvennakóra sem haldið var á Höfn í apríl 2008. Undirbúningur mótsins krafðist mikillar vinnu og skipulagningar. Á það mót komu um 350 konur. Kóramótið var mikill viðburður hér á Höfn í Hornafirði. Kórkonur stóðu þétt saman, ásamt mökum sínum, í að gera mótið sem eftirminnilegast.
Konur í Kvennakór Hornafjarðar eru sammála um að það er gaman að syngja og að syngja með öðrum er enn skemmtilegra. Þær leggja nú land undir fót og ætla að veita höfuðborgarbúum tækifæri til að hlýða á vorprógramm sitt í Árbæjarkirkju laugardaginn 21. apríl kl 15.00. Með í för eru einnig hornfirskir hljóðfæraleikarar sem munu leika undir á ýmis hljóðfæri.
Aðgangseyrir er 1500 kr. Allir velkomnir.
Vortónleikar kórsins verða svo í Hornafirði 3. maí.