Vortónleikar Kvennakórsins Léttsveitar Reykjavíkur verða 5. maí í Grafarvogskirkju kl. 17:00. Yfirskrift tónleikanna er "Douze points" en þar flytja 120 Léttur undir stjórn Gísla Magna innlenda og erlenda Eurovision smelli frá ýmsum tímum í bland við aðrar perlur úr dægurlagaheiminum.
Með í för eru Aðalheiður Þorsteinsdóttir, sem annast útsetningar og píanóleik, Tómas R. Einarsson kontrabassaleikari og Kjartan Guðnason trommari. Rúsínan í pylsuendanum er svo einsöngvarinn, sjálf ofurdívan Hera Björk Þórhallsdóttir.
Aðgangseyrir er 2.800 kr.
Léttsveitin styrkir Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt. Þátttakendur í Ljósinu koma að eigin frumkvæði og áhuga og raða saman dagskrá sem hentar hverju sinni. Starfsemi Ljóssins er rekin alla virka daga auk þess sem sérskipulögð námskeið eru á kvöldin og laugardögum.
Léttsveitin fer í framhaldi tónleikanna austur á Höfn í Hornafirði og syngur í menningarhúsinu Nýheimum laugardaginn 11. maí. Á leiðinni verður komið við á ýmsum stöðum og sungið af hjartans lyst.