Stundum er sagt að aðventan sé tími söngvara og kóra. Kvennakór Garðabæjar er alveg sammála því og ætlar sér að syngja inn hátíðina. Undanfarnar vikur hefur kórinn æft lög til flutnings á aðventunni undir dyggri stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur, kórstjóra. Mun þar kenna ýmissa grasa og má heyra mörg gamalkunnug jólalög og kirkjuleg verk ásamt nýrra efni. Kórinn mun halda hátíðlega aðventutónleika í Digraneskirkju, syngja á aðventukvöldi í Vídalínskirkju, í verslun IKEA og Hagkaupum á Garðatorgi svo nokkur dæmi séu tekin.
Aðventukvöld í Vídalínskirkju 1. desember
Kvennakór Garðabæjar mun ásamt fleirum taka þátt í aðventukvöldi í Vídalínskirkju sunnudaginn 1. desember kl. 20:00. Aðventukvöld er fastur liður í starfi Garðasóknar og hefur dagskráin verið í höndum kórs Vídalínskirkju. Boðið verður upp á fjölbreytta tónlist og hátíðarstemmingu.
Aðventutónleikar í Digraneskirkju 9. desember
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar fara fram í Digraneskirkju í Kópavogi mánudaginn 9. desember. Að þessu sinni fær kórinn Ágúst Ólafsson, baritón til liðs við sig. Tónleikamiðar verða seldir hjá kórkonum og við innganginn. Frekari upplýsingar um þessa tónleika munu birtast í næsta Garðapósti, en Garðbæingar eru hvattir til þess að taka mánudagskvöldið 9. desember frá!
Jólasöngur í IKEA 15. desember
Verslun IKEA í Garðabæ hefur farið þess á leit við Kvennakór Garðabæjar að hann syngi fyrir viðskiptavini verslunarinnar kl. 17:30-18:30 sunnudaginn 15. desember. Kórinn hlakkar til samveru við viðskiptavini IKEA og lofar jólalegri söngstemmingu.
Garnagaul, ný uppskriftabók
Á milli þess sem kórkonur lásu nótur og æfðu sig fyrir kóræfingar lágu þær yfir mataruppskriftunum sínum til að velja uppáhalds, fljótlegu uppskriftina til birtingar í uppskriftarbókinni Garnagaul sem gefin verður út í byrjun desember. Hverri uppskrift fylgir stuttur pistill sem segir frá uppskriftinni og af hverju hún varð fyrir valinu. Allar uppskriftir í bókinni eiga það sameiginlegt að þær eru fljótlegar í matreiðslu og einstaklega gómsætar.