17. - 22. ágúst 2010 verður haldin í Reykjavík 6th Nordic Baltic Choral Festival - United Voices.
Sjö af aðildarkórum Gígjunnar taka þátt í hátíðinni:
Kvennakór Garðabæjar
Kvennakór Háskóla Íslands
Kvennakór Reykjavíkur
Kvennakór Öldutúns
Kvennakórinn Ymur
Kyrjurnar
Kyrjukórinn í Þorlákshöfn
Um 67 kórar taka þátt. 1800 kórsöngvarar frá 10 þjóðlöndum, mæta til hátíðarinnar; þar af tæplega 500 íslenskir þátttakendur. Ísland, Danmörk, Noregur, Svíþjóð, Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Færeyjar og Grænland.
Hátíðin fer fram í Laugardalshöll, en tónleikar verða í helstu tónleikahúsum borgarinnar bæði í hádegi og á kvöldin. Kórarnir taka þátt í Menningarnótt og fylla stræti og torg með söng og litríkum kórbúningum yfir daginn. Um kvöldið verða lokatónleikarnir í Laugardalshöll. Þar syngja kórarnir allir saman, eitt lag frá hverju landi og flytja einnig kórverk sem þeir hafa unnið í fjórum mismunandi vinnusmiðjum yfir mótsdagana.
Kórarnir fara einnig í skoðunarferð um Gullna hringinn og Bláa lónið verður uppfullt af kórsöngvurum sem örugglega taka lagið í lóninu.
Þetta er langstærsta kórahátíð sem haldin hefur verið hér á landi og meðan fresta þarf hestamannamótum og ferðamenn hræðast afleiðingar eldgoss, þá eru kórsöngvarar bæði hugumstórir og við hestaheilsu.
Framkvæmdastjórn mótsins skipa þau: Margrét Bóasdóttir, formaður, Garðar Cortes, listrænn stjórnandi Guðríður St. Sigurðardóttir, verkefnisstjóri Matthías Kjartansson, ráðstefnur og fundir, Kópavogi.
Smelltu hérna til að skoða vefsetur hátíðarinnar