Vetrarstarfið hefst hjá Kvennakór Suðurnesja miðvikudaginn 18. september en þá verður opin æfing í Listasmiðjunni á Ásbrú. Æfingin hefst kl. 20 og eru allar konur sem hafa gaman af söng og góðum félagsskap velkomnar.
Þó að vetrarstarfið sé rétt að hefjast hafa kvennakórskonur síður en svo setið auðum höndum í sumar. Þessar kraftmiklu konur tóku að sér skipulagningu og framkvæmd bæjarhátíðar Sandgerðinga, Sandgerðisdaga, og var mikil ánægja með störf þeirra. Auk þess söng kórinn á hátíðardagskrá Sandgerðisdaga í Safnaðarheimilinu í Sandgerði og síðan í Bíósal Duushúsa á Ljósanótt.
Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og meðleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir. Æfingaaðstaða kórsins er í Listasmiðjunni, Keilisbraut 773 á Ásbrú. Æfingar eru á mánudögum og miðvikudögum kl. 20:00 - 22:00, en önnur æfingin er raddæfing og skiptast raddirnar þá á að mæta þannig að hver rödd mætir á raddæfingu þriðju hverja viku en hinar vikurnar er ein æfing. Þegar nær dregur tónleikum mæta þó allar konur tvisvar í viku. Kórstarfið snýst auðvitað fyrst og fremst um söng en kórkonur gera sér einnig ýmislegt til skemmtunar og er þetta frábær félagsskapur.
Konur sem hafa áhuga á söng og vilja taka þátt í skemmtilegu starfi með flottum konum eru hvattar til að mæta á miðvikudaginn og kynna sér starf kórsins. Boðið verður upp á veitingar að hætti kórkvenna.