Kvennakór Hafnarfjarðar heldur sína árlegu vortónleika laugardaginn 4. maí undir yfirskriftinni Litir vorsins. Líkt og aðrir vorboðar sem gleðja okkur með söng sínum hyggst kórinn fagna komu vorsins með litríkri söngdagskrá.
Vetrarstarf kórsins hefur verið öflugt og markast af því að í byrjun júní heldur kórinn í tónleikaferðalag til Portoroz og Bled í Slóveníu þar sem hann mun gefa þarlendum kost á að hlýða á sýnishorn af sönglist íslenskra kvennakóra. Æfingar hafa verið strangar og vel vandað til lagavals en jafnframt hefur verið haldið úti öflugri fjáröflun með kökubösurum og flóamörkuðum. Dagskrá vortónleikanna að þessu sinni litast að einhverju leyti af væntanlegri utanför kórsins þar sem kirkjuleg tónlist og íslensk þjóðlög verða í forgrunni. Að auki verða á efnisskrá vortónleikanna íslensk og erlend söng- og dægurlög og ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi.
Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir og undirleik annast Antonia Hevesi. Tónleikarnir verða laugadaginn 4. maí í Hásölum við Strandgötu og hefjast kl. 16:00. Miðaverð er 2500 krónur og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Gestum er boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.