Fjölbreytt efnisskrá og endurnýjuð kynni við uppáhaldslög kórkvenna
Kvennakór Garðabæjar heldur upp á tíunda starfsár sitt með veglegum afmælistónleikum í Langholtskirkju, sunnudaginn 2. maí kl.16.00.
Stofnandi og jafnframt stjórnandi kórsins, Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona, hefur frá upphafi lagt áherslu á að takast á við og bjóða upp á fjölbreytta söngdagskrá með markvissri og metnaðarfullri þróun í lagavali.
Nú býðst tónleikagestum að rifja upp tónlistarsögu kórsins og endurnýja kynni við verk sem hrifið hafa jafnt kórkonur sem gesti. Úr miklu efni er að moða eins og gefur að skilja og ógjörningur að gera öllu skil á einum tónleikum. Kórinn er stoltur af endanlegri söngskrá þar sem íslenskum kvenkyns tónskáldum verður gert hátt undir höfði, kirkjuleg verk fá að hljóma auk annarra verka úr ýmsum áttum.
Með kórnum leikur píanóleikari kórsins, Sólveig Anna Jónsdóttir, auk fimm manna strengjasveitar.
Miðaverð við innganginn er 2.500 kr., fyrir lífeyrisþega 2.000 kr. og 500 kr. fyrir börn 12 ára og yngri.
Forsöluverð er 2.000 kr. en forsala er í höndum kórkvenna. Einnig er hægt að senda póst á kvennakor@kvennakor.is.
Þann 4. september nk. mun Kvennakór Garðabæjar fagna afmæli sínu með veglegri afmælishátíð í tali og tónum sem auglýst verður síðar.