Það gengur á ýmsu hjá Freyjukórnum í Borgarfirði. Þær eru nýbúnar að standa fyrir námskeiði í gospeltónlist og þessa dagana undirbúa þær tvenna tónleika; laugardaginn 22. apríl kl. 17:00 verða tónleikar í Logalandi og laugardaginn 13. maí kl. 16:00 verða tónleikar í Reykholtskirkju. Kórinn sendi okkur fréttatilkynningu um starfsemina.
Gospelnámskeið, kóraheimsóknir og tónleikar
Starfssemi Freyjukórsins er með miklum blóma þessa dagana. Eftir vinnu við hljóðupptökur á kvikmyndatónlist í marsmánuði var skipt um gír og hafnar æfingar á gospeltónlist.
Freyjukórinn í Borgarfirði stóð fyrir gospelnámskeiði með Óskari Einarssyni og Hrönn Svansdóttur í Logalandi 5. apríl síðastliðinn. Þar mættu um 50 konur sem skráðar eru í Freyjukórinn ásamt konum úr fleiri kórum alla leið af Snæfellsnesi til að læra gospelsöng. Óskar kenndi konunum söngtækni sem gospel- og poppsöngvarar nota, en hún er gjörólík þeirri tækni sem venjulega er notuð í kórsöng.
Sýnishorn af tónlist vetrarins verður í boði laugardaginn 22. apríl kl 17:00 í Logalandi en þá mun Freyjukórinn taka á móti Söngfélagi Þorlákshafnar sem er blandaður kór. Boðið verður uppá mjög fjölbreytta tónlist allt frá þekktum þjóðlögum og kvikmyndatónlist upp í gospellög.
Freyjukórinn mun einnig taka á móti Gospelsystrum Reykjavíkur í vor og halda tónleika með þeim í Reykholstkirkju laugardaginn 13. maí. Þema þess dags verður gospel- og almenn trúartónlist.
Fjölbreytileiki og nýjungar einkenna því kórinn í ár!