Kvennakór Háskóla Íslands undir stjórn Margrétar Bóasdóttur syngur tónleika í Hjallakirkju sunnudaginn 8. nóvember kl. 16.
Gestakór á tónleikunum er Uppsveitarsystur úr Árnessýslu undir stjórn Magneu Gunnarsdóttur. Orgelleikari er Björn Steinar Sólbergsson og pianóleik annast Gróa Hreinsdóttir.
Á efnisskrá kóranna eru gullfalleg kirkjuleg verk, t.d. Drottinn er minn hirðir eftir Franz Schubert, Ave Maria eftir Bach-Gounod og Eitt er orð Guðs eftir Gabriel Fauré. Einnig verða sungin íslensk, bandarísk og suður-amerísk lög. Björn Steinar Sólbergsson leikur orgelverk eftir Felix Mendelssohn og kvennakór Háskólans flytur Denn er hat seinen Engeln úr óratoríunni Elía eftir Mendelssohn í nýrri útsetningu Martin Goettsche fyrir tvo kvennakóra. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi útsetning er flutt hér á landi.
Kvennakórinn við Háskólann hefur starfað í 4 ár og var stofnaður með kjarna kórstúlkna sem hafa margra ára söngreynslu. Kórinn skipa nú 32 stúlkur sem eru flestar nemendur eða starfsfólk háskólans. Kórinn hefur verið vinsæll hjá söngelskum, erlendum skiptinemum og nú syngja sjö stúlkur frá fimm mismunandi löndum með í kórnum.
Uppsveitasystur hófu söngstarf sitt 2006. Þær hafa haldið fjölda tónleika og tóku þátt í Kórastefnu við Mývatn 2007. Kórinn skipa 28 konur víðs vegar að úr Árnessýslu og hefur Magnea Gunnarsdóttir stjórnað þeim frá upphafi.
Aðgangseyrir er kr. 2000.- fyrir fullorðna en ókeypis fyrir börn og alla nemendur.
Uppsveitarsystur úr Árnessýslu