Fimmtudaginn 18. desember ætlar einvalalið tónlistarmanna tengdir Suðurnesjum að koma fram á jólatónleikum til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja.
Á tónleikunum munu koma fram Elíza Geirsdóttir Newman, Jóhann Helgason, Karlakór Keflavíkur, Klassart, Kvennakór Suðurnesja, Magnús, Kjartan Már og Finnbogi Kjartanssynir, Védís Hervör og Þóranna Kristín. Allir aðstandendur og þeir sem fram koma gefa vinnu sína og rennur andvirði aðgöngumiða óskert til Velferðarsjóðs Suðurnesja.
Fráfall Rúnars Júlíussonar hefur haft mikil áhrif á Suðurnesjamenn og hefur jafnframt áhrif á tónleikana, en Rúnni ætlaði að koma fram á tónleikunum ásamt fjölskyldu sinni. Tónleikarnir verða því haldnir í minningu hans enda hafa flestir ef ekki allir tónlistarmennirnir sem fram koma kynnst Rúnna og margir hverjir unnið með honum í gegnum tíðina.
Viðtökur við hugmyndinni að tónleikunum hafa verið frábærar og allir boðnir og búnir til að leggja sitt af mörkum. Auk tónlistarmannanna hafa fyrirtæki tekið vel í að styrkja verkefnið með framlögum í ýmsu formi. Þannig leggur Bláa lónið til salinn, Sparisjóðurinn styrkir verkefnið og sér auk þess um miðasölu á tónleikana, Grágás gefur prentun og keflvískir hönnuðir sjá um auglýsingagerðina auk þess sem Víkurfréttir gefa auglýsingabirtingar. Allt þetta gerir það mögulegt að láta ágóðann renna óskertan til málefnisins.
Tónleikarnir eru fimmtudaginn 18. desember og hefjast kl. 20:00 í Lava sal Bláa lónsins.
Miðaverð er kr. 2.500,- og forsala aðgöngumiða fer fram í útibúum Sparisjóðsins um öll Suðurnes.
Fjárframlög til Velferðarsjóðs Suðurnesja má leggja inn á reikning 1109-05-1151 kt. 680169-5789.