Kvennakór Akureyrar er nú að byrja sitt 8. starfsár og var fyrsta æfing vetrarins haldin 13. september, en kórinn hafði áður tekið þátt í hinni árlegu Akureyrarvöku sem haldin var 29. ágúst.
Á þessa fyrstu æfingu mættu um 70 konur, hressar og endurnærðar eftir gott sumarfrí og tilbúnar að syngja af hjartans lyst. Óskað hafði verið eftir nýjum konum í kórinn og mættu um 10 konur í raddprufu fyrir æfinguna.
Dagskráin fram að jólum er metnaðarfull og skemmtileg og efnisskráin er fjölbreytt að vanda. Daníel Þorsteinsson er áfram stjórnandi kórsins og Mikael Jón Clarke hefur tekið að sér að stjórna raddæfingum einu sinni í mánuði og er það mikill fengur fyrir kórinn.
Nú á haustmánuðum var tekið í notkun nýtt útlit á vefsíðu kórsins. Vefsíðan er enn í vinnslu og á eftir að bæta inn á hana upplýsingum, myndum og fleiru.
Þess má einnig geta að kórinn hefur eignast nýjan kórbúning, sem eru dökkrauðir kjólar eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem tekin var í vorferð kórsins á Neskaupsstað helgina 5. – 7. júní síðast liðinn.