Sunnudaginn 11. desember næstkomandi verður sannkölluð söngveisla í Garðabæ þegar kórar úr bæjarfélaginu koma saman og fagna alþjóðadegi kóra með tónleikum í Vídalínskirkju kl. 16.
Alls taka þátt sex kórar, Kór Hofsstaðaskóla, Kór Vídalínskirkju, Garðakórinn (kór eldri borgara í Garðabæ), Kór Sjálandsskóla, Sönghópurinn Söngdísir úr Tónlistarskóla Garðabæjar og Kvennakór Garðabæjar.
Kórahátíðin verður í formi nokkurs konar söngmaraþons þar sem hver kór syngur eigin dagskrá auk sameiginlegs söngs. Það verður sannarlega hlý og notaleg stemning í Vídalínskirkju þegar kórafólk á öllum aldri sameinast í sannri jólagleði og syngja öll fallegu jólalögin.
Aðgangur er ókeypis og eru allir íbúar höfuðborgarsvæðisins hvattir til að fjölmenna enda fátt hátíðlegra á aðventunni en fallegur kórsöngur.
Að kórahátíðinni standa Kvennakór Garðabæjar og Menningar- og safnanefnd Garðabæjar.