Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, stendur fyrir landsmótum kvennakóra á þriggja ára fresti. Helgina 9.-11. maí næstkomandi verður landsmótið, sem er það níunda í röðinni, haldið á Akureyri og sér Kvennakór Akureyrar um skipulagningu og framkvæmd þess. Tuttugu kvennakórar víðsvegar að af landinu hafa skráð sig til þátttöku og einn gestakór kemur frá Noregi. Búist er við 700 syngjandi konum til Akureyrar þessa helgi.
Unnið verður í sex söngsmiðjum á mótinu og afraksturinn fluttur í stærri sal menningarhússins Hofs sunnudaginn 11. maí. Auk þess sameinast kórarnir allir á sviði ásamt hljómsveit og flytja saman fjögur lög, meðal annars verður frumflutt lag Huga Guðmundssonar tónskálds við texta Jakobínu Sigurðardóttur, Vor í garði. Segja má að forsmekkurinn að þessum stórtónleikum verði laugardaginn 10. maí þegar hver kór fyrir sig flytur sína efnisskrá á tónleikum.
Þessi viðburður mun án efa setja sterkan svip á bæjarlífið á Akureyri þessa helgi og söngurinn kemur til með að óma um bæinn. Miðasala á tónleikana er hafin á vefslóðinni menningarhus.is.