Kvennakór Kópavogs afhendir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs 660 þúsund króna styrk.
Í byrjun nóvember stóð Kvennakór Kópavogs fyrir góðgerðartónleikum, undir yfirskriftinni „Hönd í hönd“, til styrktar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Uppselt var á tónleikana og tókust þeir með miklum ágætum. Afrakstur tónleikanna voru 660.000 kr. sem renna óskiptar til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs. Fulltrúar kórkvenna afhentu upphæðina þann 30. nóvember sl. Starfsmenn Mæðrastyrksnefndar tóku á móti styrknum með hlýju og þakklæti enda hefur þörfin fyrir aðstoð aldrei verið eins mikil og nú og margar fjölskyldur og einstaklingar sem þurfa stuðning fyrir þessi jól.
Auk Kvennakórsins komu fram á tónleikunum Skólakór Kársness, Barnakór Álfhólsskóla, félagar úr Skólahljómsveit Kópavogs, Margrét Eir, Regína Ósk, Guðrún Gunnarsdóttir, Kristján Jóhannsson og Gunnar Sigurjónsson prestur í Digraneskirkju. Kvennakór Kópavogs vill nota tækifærið og þakka flytjendum, starfsfólki Digraneskirkju, sem og öðrum sem lögðu hönd á plóginn og gáfu vinnu sína til að gera þessa tónleika að veruleika, kærlega fyrir þeirra framlag. Ekki má heldur gleyma að þakka þeim frábæru tónleikagestum sem á hlýddu og studdu þannig við bakið á þessu mikilvæga verkefni.
Kvennakór Kópavogs stefnir á að gera góðgerðartónleika fyrir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs að árvissum viðburði og er það einlæg von kórkvenna að „Hönd í hönd“ verði áfram vel tekið af flytjendum jafnt sem tónleikagestum.
Mynd: Styrkurinn afhentur. Sigurfljóð Skúladóttir, forstöðumaður Mæðrastyrksnefndar Kópavogs tekur við styrknum úr hendi formanns Kvennakórs Kópavogs, Sigríðar Tryggvadóttur. Þá afhenti Mæðrastyrksnefnd Kvennakórnum jafnframt þakkarbréf þar sem segir orðrétt: Mæðrastyrksnefnd Kópavogs þakkar af alhug Kvennakór Kópavogs fyrir ómetanlegan stuðning. Framlag ykkar skiptir starfsemina miklu máli.