Sunnudaginn 6. nóvember n.k. mun Kvennakór Kópvogs, í samstarfi við Digraneskirkju, standa fyrir tónleikum til styrktar Mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Þetta er þriðja árið í röð sem Kvennakór Kópavogs stendur fyrir slíkum tónleikum undir yfirskriftinni Hönd í hönd. Auk Kvennakórs Kópavogs, sem syngur nú í fyrsta skipti undir stjórn nýs kórstjóra, Gróu Hreinsdóttur, mun fjöldi frábærra tónlistarmanna koma fram og skemmta gestum. Þeir sem stíga á stokk eru: Gissur Páll Gissurarson, Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar Guðmundsson úr Hjaltalín, Sigurður Guðmundsson úr Hjálmum, Sönghópurinn Spectrum og Ingveldur Ýr, Ólöf Jara Skagfjörð og Hulda María Halldórsdóttir sem syngur á táknmáli. Einnig ætla félagar úr Skólahljómsveit Kópavogs, Vallargerðisbræður og Drengjakór Hafnarfjarðar að leggja okkur lið. Ræðumaður verður Gunnar Sigurjónsson prestur í Digraneskirkju.
Allir listamenn svo og aðrir sem koma að skipulagningu og framkvæmd tónleikanna gefa vinnu sína og miðaverð rennur því óskipt til Mæðrastyrksnefndar Kópavogs.
Við hvetjum alla til að leggja hönd á plóginn og mæta á tónleikana, njóta góðrar skemmtunar og styrkja í leiðinni gott málefni. Tónleikarnir verða haldnir í Digraneskirkju þann 6. nóvember n.k. kl. 16:00 og er áætlað að þeim ljúki um kl. 18:00. Hægt er að panta miða með því að senda póst á netfangið hondkk@gmail.com. Einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn meðan húsrúm leyfir. Aðgangseyrir er 2.500 kr.