Kvennakór Garðabæjar hóf að venju starfsemi sína í lok ágúst. Þá mættu kórkonur aftur til leiks, úthvíldar eftir gott sumarfrí. Síðasta starfsári kórsins lauk með einstaklega ánægjulegum vortónleikum í Guðríðarkirkju í maí, þar sem kórinn söng fyrir fullu húsi. Stofnandi og stjórnandi kórsins er Ingibjörg Guðjónsdóttir sópransöngkona.
Nýjar konur boðnar velkomnar
Mikil aðsókn var í kórinn í haust. Haldnar voru áheyrnarprufur sem lauk með þeim hætti að níu konur voru teknar inn í kórinn. Við bjóðum þær hjartanlega velkomnar til söngs og leiks.
Æfingabúðir í Skálholti
Í upphafi starfsárs fór kórinn í æfingabúðir í Skálholt og dvaldi þar eina helgi. Æfingabúðirnar eru mikilvægur liður í starfi kórsins og er markmið þeirra bæði sönglegs- og félagslegs eðlis. Mikið var lesið og sungið af nýjum verkum sem kórinn hyggst flytja á komandi starfsári og þess á milli skemmtu kórkonur sér vel saman og nutu útiveru í fallegu haustveðrinu. Mikill hiti og litagleði var í loftinu þar sem þema helgarinnar var Hawaii.
Næstu viðburðir hjá Kvennakór Garðabæjar
Mikill hugur er í kórkonum um þessar mundir og geta aðdáendur kórsins átt von á miklum og metnaðarfullum söng á þessu starfsári. Verkefni kórsins eru ærin og hér er hluti af því sem framundan er:
• 24. október. Opin æfing hjá kórnum í Safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli í Garðabæ
• 2. nóvember. Vígsla á nýju kirkjuorgeli í Vídalínskirkju
• 14. nóvember. Styrktartónleikar fyrir LSH í Bessastaðakirkju.
• 7. desember. Aðventutónleikar kórsins í Digraneskirkju.
Við vonumst eftir því að sjá Garðbæinga og annað gott fólk flykkjast á viðburði kórsins og við hlökkum til þess að syngja fyrir ykkur.
Kvennakór Garðabæjar á facebook
Hægt er að fylgjast með starfssemi kórsins á facebook síðu Kvennakórs Garðabæjar.