Hátíðin Kærleikar verður haldin föstudaginn 12. febrúar kl. 18:00 í hjarta Reykjavíkurborgar.
Okkur þætti vænt um ef kórinn þinn eða meðlimir úr þínum kór hefðu tök á að mæta og taka þátt í hátíðinni með því að syngja saman við Reykjavíkurtjörn ásamt öðrum kórum landsins. Lógó hátíðarinnar er í sama stíl og lógó Ólympíuleikanna nema hvað að hringirnir hafa breyst í hjörtu. Þema hátíðarinnar er að skapa samkennd, hvatningu sem veitir styrk og gjöf jákvæðra tilfinninga til hvers annars. Á þessari hátíð sameinumst við öll um kærleikann, kveikjum ljós í hjörtum og sendum saman jákvæða strauma út í samfélagið.
Hátíðin hefst á Austurvelli. Þar leggja ýmsir þekktir einstaklingar fram fallega hugsun um kærleikann og það sem tengir okkur saman. Þegar því er lokið göngum við kærleiksgöngu í kringum Tjörnina við undirleik Lúðrasveitarinnar Svanurinn. Gangan endar á túninu beint á móti Ráðhúsinu þar sem stytta Ólafs Thors er. Þar sameinast kórarnir á túninu og syngja undir stjórn Björns Thorarensen. Loks fleytum við kertum og sendum jákvæða strauma út í samfélagið og til þeirra sem við elskum.
Í fyrra er talið að um 3000 manns hafi mætt á hátíðina. Þar á meðal voru: Biskup Íslands, Allsherjargoðinn, Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfi, Brassband Samúels og félaga, Mannréttindastofa, Unifem, AUS, Rauði krossinn, Mótettukórinn, Óperukórinn, Kór Langholtkirkju, Söngraddir Reykjavíkur, Lavateatro, Leikhópurinn Sólin, félagar úr Leikhópnum Perlan, Friðarhús o.fl. Okkur þætti vænt um ef þinn kór gæti verið með í ár.
Lögin sem verða tekin eru:
Hver á sér fegra föðurland (fjórraddað án undirleiks)
Við gengum tvö (einraddað með undirleik)
Vísur Vatnsenda-Rósu (fjórraddað án undirleiks)
Kvæðið um fuglana (einraddað með undirleik)
Kenndu mér að kyssa rétt (einraddað með undirleik)
Nótur og textar að öllum lögunum voru sendar til Gígjunnar og má fá afrit af þeim með því að senda póst á gigjan2003(hjá)gmail.com.
Kórarnir munu standa efst í brekkunni fyrir aftan styttu Jóns Einarssonar "Úr álögum". Kórfólk er beðið um að vera eins framarlega og hægt er í göngunni svo það geti stillt sér strax upp og gangan kemur að styttunni. Litur hátíðarinnar er rauður og því er upplagt ef kórmeðlimir mæta með eitthvað rautt í klæðum t.d. rauðan trefil, vettlinga eða í rauðri peysu.
Með von um æðislega þátttöku.
Kærleikskveðja,
Bergljót Arnalds, hugmyndasmiður og verkefnastjóri
sími: 691 0099